Samkvæmt heimildum fréttastofu var tveimur pólskum konum á sextugsaldri fylgt eftir frá flugstöðinni í Keflavík við komuna til landsins í byrjun október vegna gruns um að þær hefðu fíkniefni meðferðis.
Grunurinn var staðfestur þegar lögregla handsamaði konurnar þar sem þær voru komnar á fund móttakanda efnanna á hóteli skömmu síðar. Sá reyndist vera íslenskur karlmaður á þrítugsaldri og fóru öll þrjú í gæsluvarðhald.
Málið er rakið í myndbandinu hér að neðan:
Konurnar tvær eru enn í gæsluvarðhaldi en héraðssaksóknari fær senn mál þremenninganna á sitt borð. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver þáttur kvennanna var í skipulagningunni en á undanförnum árum hafa dómar mildast allnokkuð á hendur þeim sem teljast vera burðardýr. Sambærilegt mál endaði í sex mánaða fangelsi fyrr á þessu ári.
Öðru gegnir um eiginlega skipuleggjendur glæpanna sem geta átt yfir höfði sér frá kannski þremur og allt að sex ára fangelsi, allt eftir alvarleika brotanna. Refsiramminn nær allt upp í tólf ár.
Fleiri að reykja metamfetamín
Lögreglan á Suðurnesjum staðfestir í svari við fyrirspurn fréttastofu að í fórum fólksins hafi fundist tæpt hálft kíló af metamfetamíni, því sem kallað er á ensku crystal meth. Einnig hafi fundist rúmlega 6.000 stykki af fikniefnum í töfluformi. Lögreglan vinnur að rannsókn málsins í samstarfi við tollgæsluna á keflavíkurflugvelli
Notkun metamfetamíns, sem jafnan er innbyrt með því að reykja kristalana, hefur aukist nokkuð á undanförnum árum á Íslandi.
Vitað er til þess að fleiri haldlagningar hafa orðið af metamfetamíni í ár, sem þýðir að magnið er þegar orðið meira en árið 2020, þegar það var 653.
Samkvæmt heimildum fréttastofu voru töflurnar sem fundust hjá konunum af gerðinni oxycodone og fentanyl, sem hvort tveggja eru einhver sterkustu verkjalyf sem til eru.
Þetta eru ópíóðar, upphaflega runnir undan rifjum bandarískra lyfjafyrirtæka sem sum hafa sætt sektum vegna samfélagslega skaðans sem lyfin hafa valdið.
Sprenging hefur orðið í notkun lyfjanna víða um heim en þeirra fór fyrst að verða vart á Íslandi fyrir nokkrum árum. Andlát hafa orðið hér á landi í tengslum við notkunina. Árið 2020 voru tæpir 200 í meðferð á Vogi vegna ópíóðafíknar.