Innlent

Gagnrýnisverð hegðun

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sigmar gagnrýnir gjörðir Sigríðar Bjarkar.
Sigmar gagnrýnir gjörðir Sigríðar Bjarkar. Samsett

Þingflokksformaður Viðreisnar telur viðskipti embættis Ríkislögreglustjóra við ráðgjafafyrirtækið vera gagnrýnisverð. Hann segir ríkislögreglustjóra ekki endilega rétta einstaklinginn til að endurvinna traust til embættisins.

„Að þetta hafi viðgengist í fimm ár er áfellisdómur yfir Ríkislögreglustjóra. Svona á ekki að fara með peningana okkar,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, í færslu á Facebook.

Vísar hann þar í greiðslur embættis Ríkislögreglustjóra, undir stjórn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, til ráðgjafafyrirtækisins Intra sem voru 160 milljónir króna á fimm árum. Fjallað hefur verið um málið undanfarna daga auk slæmrar fjárhagsstöðu embættisins þar sem nokkrum var sagt upp störfum á sama tíma og ráðgjafinn var ráðinn í tímabundið starf.

Sjá nánar: Greiðslur ríkislögreglustjóra til Intra

„Ég sé að Ríkislögreglustjóri viðurkennir að þetta séu mistök sem rýrt hafa traust til embættisins. En á sama tíma hefur Sigríður Björk sagt að hún sjái ekki ástæðu til að íhuga sína stöðu. Þetta tvennt fer augljóslega ekki saman,“ segir Sigmar.

„Stjórnandi sem jafnt og þétt yfir fimm ára tímabil hefur hagað fjármálum embættisins með þeim hætti að traust til lögreglunnar bíður hnekki er ekki endilega rétti einstaklingurinn til að endurvinna traustið. Embættið hlýtur að vera stærra en einstaklingurinn sem gegnir því.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, sem er einnig í þingflokki Viðreisnar, hefur fengið afhent gögn frá embættinu og metur nú stöðu þess. Staða Sigríðar Bjarkar sé alvarleg og hyggst vinna málið hratt og vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×