Skoðun

Við þurfum líka þjónustu sér­greina­lækna úti á landi!

Pétur Heimisson skrifar

Það skiptir máli hver stjórnar!

Fólk úti á landi notar þjónustu sérgreinalækna mikið minna en íbúar höfuðborgarsvæðisins og engir minna en íbúar á Austurlandi og Vestfjörðum. Eina tiltæka skýringin á þessum mikla mun er sú dapra staðreynd að kaupandi þjónustunnar, íslenska rikið, hefur lengst af ekki gert það að skilyrði að þjónustan sé veitt sem nærþjónusta. Þjónusta sérgreinalækna hefur því nær eingöngu byggst upp í Reykjavík og þangað þarf fólk að sækja hana með tilheyrandi óþægindum og kostnaði fyrir einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki og samfélag.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu segir um markmið þeirra að ..allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita... . Þar segir og að þetta skuli gera í samræmi við lög um réttindi sjúklinga, en í 1. grein þeirra segir; Óheimilt er að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Jöfnuður er einn hornsteina í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð. Það sýndi sig fljótt varðandi heilbrigðismálin með tilkomu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ég hef starfað sem læknir á Austurlandi í rúm 30 ár og upplifði sterkt hvernig vinna við að jafna aðgengi og draga úr mismunun tók fjörkipp með tilkomu Svandísar Svavarsdóttur sem heilbrigðisráðherra. Í sinni ráðherratíð hefur hún unnið markvisst að því að draga úr búsetutengdum ójöfnuði í heilbrigðisþjónustu. Á aðeins fjórum árum og þrátt fyrir heimsfaraldur hefur þegar talsvert áunnist. Betur má ef duga skal og því er mikilvægt að tryggja VG brautargengi í kosningunum á morgun, 25. September. Það skiptir máli hver stjórnar.

Munum að þetta fjallar allt um fólk og munum líka að fólkið, íslenska þjóðin, hefur margendurtekið sagt það skýrt að hún vill opinbera heilbrigðisþjónustu sem sterkasta.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur skýra stefnu og markmið varðandi heilbrigðismálin sem byggir á því að þjónustan er til fyrir fólk og borin uppi af fólki. Áhersla þjóðarinnar á sterka opinbera heilbrigðisþjónustu og öruggt, jafnt aðgengi, þarf á því að halda að Vinstri hreyfingin – grænt framboð fái góða kosningu og ekki síst úti á landi.

Höfundur er heimilislæknir og fulltrúi VG í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×