Erlent

Stjórnar­myndunar­við­ræður í fullum gangi í Noregi

Kjartan Kjartansson skrifar
Jonas Gahr Støre reynir nú að mynda meirihlutastjórn með sósíalistum og Miðflokki. Takist það ekki gæti hann þurft að klambra saman minnihlutastjórn.
Jonas Gahr Støre reynir nú að mynda meirihlutastjórn með sósíalistum og Miðflokki. Takist það ekki gæti hann þurft að klambra saman minnihlutastjórn. Vísir/EPA

Þrír flokkra af vinstri væng og miðju norskra stjórnmála koma saman til síns fyrsta fundar til að ræða mögulega stjórnarmyndun í dag. Framtíð olíuiðnaðarins, skattamál og samskiptin við Evrópusambandið eru talin helstu ágreiningsmál flokkanna.

Ríkisstjórn Ernu Solberg féll í þingkosningunum í Noregi fyrr í þessum mánuði. Verkamannaflokkurinn, Vinstri sósíalistar og Miðflokkurinn unnu meirihluta þingsæta. Fastlega er búist við því að Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra.

Gahr Støre hefur fundað með Trygve Slagsvold Vedum, leiðtoga Miðflokksins, og Auðun Lysbakken, leiðtoga sósíalista, hvorum í sínum lagi síðustu vikuna en í dag funda þeir allir saman í fyrsta skipti svo vitað sé, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Við höfum skýrt umboð til breytinga úr kosningunum og við ætlum að ræða hvernig við getum látið þær breytingar verða. Ég er mjög bjartsýnn á það,“ sagði Gahr Støre við fréttamenn.

Leiðtogarnir eru sagðir ætla að ræða hvort tilefni sé til að hefja ítarlegri viðræður í næstu viku eða hvort að Gahr Støre þurfi mögulega að mynda minnihlutastjórn.

Ýmis ágreiningsmál eru á milli flokkanna. Loftslagsmál og olíuframleiðsla Norðmanna voru ofarlega á baugi í kosningabaráttunni. Sósíalistar vilja hætta leit að nýjum olíulindum á norsku hafsvæði en bæði Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn eru andsnúnir því.

Síðarnefndu flokkarnir óttast atvinnumissi þegar fjarar undan olíuiðnaðinum og vilja heldur að ríkið ýti undir að verkfræðiþekking úr olíuvinnslu nýtist við framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Um fjörutíu prósent af útflutningstekjum Noregs koma frá útflutningi á olíu og gasi. Norðmenn framleiða nú um fjórar milljónir tunnur á dag en búist er við því að framleiðslan byrji að dragast saman eftir 2030.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×