Erlent

Níu í lífs­hættu eftir stunguárásina

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Lestin við Huntingdon lestarstöðina.
Lestin við Huntingdon lestarstöðina. AP

Tíu manns eru særðir, þar af níu lífshættulega, eftir stunguárás um borð í lest á leið til Cambridge-skíris á Bretlandi í gær. Tveir menn sem grunaðir eru um verknaðinn voru handteknir á Huntingdon lestarstöðinni í gær.

Samkvæmt frétt BBC réðust mennirnir tveir að tíu farþegum um borð í lestinni klukkan 18:25 að staðartíma.

Lestin var á leið frá Doncaster til hinnar fjölförnu King's Cross lestarstöðvar í Lundúnum. Lögreglu bárust tilkynningar og símtöl frá öðrum farþegum um borð um 19:40.

Lestin var svo stöðvuð í Huntingdon í Cambridge-skíri, þar sem lögreglumenn fóru um borð.

Klukkan 21:45 tilkynnti bæjarstjóri Cambridge-skíris að tveir menn hefðu verið handteknir.

Fram kemur í frétt BBC að hryðjuverkadeild bresku lögreglunnar sé meðal þeirra sem rannsaka málið.

Héldu að um hrekkjavökugrín væri að ræða

Olly Foster, eitt vitni um borð í lestinni, sagði við BBC að þegar hann heyrði fólk um boð hrópa „hlaupið, hlaupið, það er maður að stinga alla,“ hefði hann haldið að um hrekkjavökugrín væri að ræða.

Svo hafi fólk byrjað að troða sér í gegnum vagninn, og hann hafi hann tekið eftir því að hendin hans væri útötuð í blóði, vegna þess að hann hafði hallað sér upp að blóðugu sæti.

Hann segir frá því að eldri maður hafi komið í veg fyrir að annar árásarmaðurinn hefði stungið unga stelpu, en maðurinn hafi slasast á hálsi og hausnum.

Farþegar hafi reynt að nota föt sín til að minnka blæðingar.

Blóðugir farþegar að detta hver um annan

Í frétt Telegraph er sagt frá því að vitni hafi reynt að fela sig inni á klósettum, en aðstæður hafi verið skelfilegar og algjör ringulreið hafi ríkt í lestinni.

Farþegar hafi margir verið útataðir í blóði og mikill troðningur hafi myndast þar sem fólk var að reyna flýja.

Farþegar hafi dottið hver um annan og sumir lent undir troðningnum.

Vitni á lestarstöðinni sögðu frá manni þar með stóran hníf, sem lögreglan á að hafa handtekið og notað til þess rafbyssu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×