Erlent

Miðaldaturn í Róm hrundi að hluta

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mikill fjöldi viðbragðsaðila var á vettvangi til að aðstoða við björgun. Turninn hrundi að hluta.
Mikill fjöldi viðbragðsaðila var á vettvangi til að aðstoða við björgun. Turninn hrundi að hluta. Vísir/AP

Turn frá miðöldum, Torre dei Conti, hrundi að hluta í morgun í Róm við endurbætur á turninum. Turninn er staðsettur nærri Collosseum. Í frétt AP kemur fram að einn verkamaður hafi slasast lífshættulega þegar turninn hrundi og annar hafi verið fastur.

Í frétt AP segir að hundruð ferðamanna hafi fylgst með þegar slökkviliðsmenn notuðu færanlegan stiga til að koma sjúkrabörum upp á efri hæð Torre dei Conti til að bjarga verkamanninum sem var fastur. Annar hluti turnsins hrundi við björgunaraðgerðirnar.

Luca Cari, talsmaður slökkviliðsins, staðfesti að einn verkamaður væri enn fastur klukkustundum eftir fyrsta hrunið. Hann bætti við að verið væri að huga að verkamanni sem hafði verið bjargað en að hann væri enn í lífshættu. Þremur verkamönnum hefði verið bjargað ómeiddum.

Roberto Gualtieri borgarstjóri Rómar og Alessandro Giuli menningarmálaráðherra Ítalíu voru á staðnum en neituðu að ræða við fréttamenn.

Queen Paglinawan var að vinna í ísbúð nærri turninum þegar hún heyrði tvo háa dynki frá turninum með stuttu millibili.

„Ég var að vinna og þá heyrði ég eitthvað falla, og svo sá ég turninn hrynja á ská,“ sagði Paglinawan í viðtali við AP. Í bakgrunni má heyra þegar annar hluti turnsins hrundi.

Rykmökkur gerði björgunarstarfið erfitt. Vísir/AP

Torre dei Conti var byggður á 13. öld af Innósentíusi III. páfa sem bústaður fyrir fjölskyldu hans. Turninn skemmdist í jarðskjálfta árið 1349 og hrundi aftur á 17. öld. Turninn er um 29 metra hár og hýsti áður skrifstofur en hefur ekki verið notaður síðan 2006. Endurbætur hafa staðið síðustu þrjú ár og átti samkvæmt plani að vera lokið á næsta ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×