Erlent

Annar hinna hand­teknu látinn laus: „Drepið mig, drepið mig, drepið mig“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Rannsakendur skoða vettvang á lestarstöðinni.
Rannsakendur skoða vettvang á lestarstöðinni. Getty

Annar tveggja manna sem handteknir voru í kjölfar stunguárásar í lest í Cambridge-skíri í Bretlandi í gærkvöldi hefur verið látinn laus. Hinn þeirra er grunaður um tilraun til manndráps.

Í uppfærslu frá lögreglunni í Bretlandi um gang rannsóknarinnar segir að lögreglan hafi handtekið þann sem nú gengur laus í góðri trú eftir ábendingu um að hann bæri ábyrgð á árásinni. Svo væri hins vegar ekki.

Upphaflega voru níu manns metnir með lífshættulega áverka. Fimm þeirra hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi, en einn er enn sagður í lífshættulegu ástandi.

Lestin sem árásin átti sér stað í var á leið frá Doncaster til Lundúna. Grunaður árásarmaður steig um borð í Peterborough. Eftir að árásin hófst nam lestin staðar í bænum Huntington.

Hnífurinn sem árásarmaðurinn er talinn hafa beitt fannst þar á vettvangi.

Myndband af handtökunni

Myndband sem sýnir handtöku lögreglu á öðrum mannanna við lestarstöðina gengur nú um samfélagsmiðla og hefur verið birt á vefsíðum gulu pressunnar.

The Sun hefur eftir leigubílstjóra sem tók umrætt myndband að árásarmaðurinn hafi öskrað „drepið mig, drepið mig, drepið mig,“ áður en hann var handtekinn.

Í myndbandinu sem um ræðir sést hópur lögreglumanna umkringja árásarmanninn og reyna að ná stjórn á honum. Til þess beita lögreglumennirnir rafbyssu, en árásarmaðurinn virðist streitast gegn handtökunni.

„Náið tökum fjandans tökum á honum,“ heyrist einn lögregluþjónninn öskra. Annar heyrist skipa árásarmanninum að rétta honum hendur sínar, enn annar biður um að honum séu rétt handjárn.

Maðurinn er einn tveggja manna á fertugsaldri sem handteknir voru vegna málsins. Einungis annar þeirra er grunaður um tilraun til manndráps að svo stöddu, en hinn þeirra hefur verið látinn laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×