Skoðun

Byggða­stefnan hefur siglt í strand

Þorgrímur Sigmundsson skrifar

Því miður hefur byggðastefna hér á landi silgt í strand. Það sést með skýrum hætti ef byggðaþróun er skoðuð nokkra áratugi aftur í tímann. Það er ljóst að það bútasaumskerfi sem hér hefur verið rekið og byggist á því að stökkva í neyðaraðgerðir þegar allt er komið í óefni dugar ekki lengur. Bútasaumurinn hefur verið kallaður ýmsum nöfnum; Vestfjarðaraðstoð, aðstoð við brotthættar byggðir, nú eða aðstoð við köld svæði. Stundum er hann kenndur við þann landshluta sem er undir hverju sinni og stundum við aðgerðina. Það er ekki aðalatriðið heldur það, að þessi aðferðafræði hefur því miður ekki getað snúið þróuninni við. Nú blasir við, að til að geta kallað fram raunhæfar breytingar þarf að ráðast í almennari aðgerðir og þá helst til breytinga á skattkerfinu.

Borgríki

Það er alveg hægt að lýsa þessu á myndrænan hátt sem birtist skýrast í því að við erum að verða með eitt mesta borgríki Evrópu. Það eru kannski ekki margir Íslendingar sem hafa velt því fyrir sér hvort það sé þróun sem við viljum sjá enda er hún á skjön við það sem aðrar þjóðir eru að reyna að ná fram. Þannig sjáum við hjá okkar næstu nágrönnum, Norðmönnum, að á Óslóarsvæðinu, býr um það bil 25% Norðmanna og þykir þeim nóg um. Ef við tökum hins vegar áhrifasvæði Reykjavíkur, sem má skilgreina á milli Hvítánna tveggja, þá búa nú þar upp undir 85% Íslendingar. Það er fráleitt að tala um jöfnun á vægi atkvæða þegar allar stofnanir landsins eru komnar á þetta svæði þar sem meira og minna allir búa. Það þarf að ráðast í öflugar og kraftmiklar aðgerðir ef á að vera hægt að snúa við þessari þróun eða í það minnsta stöðva hana. Það verður ekki gert með smáskammtalækningum eins og hafa hér verið við hafðar í áratugi.

Það þarf að kjósa breytingar

Þegar menn tala um vægi atkvæða þá snýst það ekki aðeins um fjölda kjörinna fulltrúa. Það snýst um aðgang borgaranna að þjónustu og stofnunum ríkisins og því gríðarlega valdi sem embættismenn hafa. Til að stöðva þessa þróun og snúa henni við þannig að fólki og fyrirtækjum þyki áhugavert að starfa úti á landi verður að ráðast í miklar aðgerðir. Þær verða að vera almennar og skapa skilyrði fyrir því að rekstur úti á landi sé jafnsettur rekstri á höfuðborgarsvæðinu og jafn hagkvæmur fyrir þá sem fjárfesta í honum. Því þarf að skapa almenna jákvæða hvata fyrir fólk og fyrirtæki til þess að starfa úti á landi. Sú aðferð sem hefur verið viðhöfð undanfarna áratugi dugar ekki lengur. Ef fer sem horfir munu aðeins örfáir kjarnar úti á landi lifa þetta af og hinir smám saman fjara út. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að það sé það sem íbúar þessa lands vilja. Til að fá fram breytingar þarf að kjósa breytingar.

Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.

Höfundur er varaþingmaður og situr í 3. sæti lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×