Innlent

Ekkert verður af Color Run í ár

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Samstarf Color run
Samstarf Color run

Ákveðið hefur verið að fresta Litahlaupinu, The Color Run, sem átti að fara fram þann 28. ágúst næstkomandi fram til næsta sumars vegna samkomutakmarkana. Vonast er til að hægt verði að halda hlaupið samkomutakmarkanalaust í júní á næsta ári.

Í tilkynningu frá aðstandendum viðburðarins segjast þeir hafa vonað að hlaupið gæti farið fram í lok ágúst eða september en þar sem ekki sé útlit fyrir afléttingu samkomutakmarkana á næstunni hafi verið ákveðið að fresta hlaupinu. 

Dagsetningin sem miðað verður við er 4. júní 2022.

Þetta er annað árið í röð sem hlaupinu er frestað en það átti að fara fram í september í fyrra. Því var þá frestað vegna samkomutakmarkana fram í júní í ár en þegar kom að því að halda það voru samkomutakmarkanir enn í gildi. Því var því aftur frestað frá júní til loka ágúst í samræmi við afléttingaráætlun stjórnvalda.

Sjá einnig: Col­or Run frestað fram á næsta ár.

Aðeins hægt að fá endurgreitt næstu tvær vikur

Aðgöngumiðar flytjast sjálfkrafa yfir á nýja dagsetningu og þurfa miðaeigendur ekki að grípa til neinna ráðstafana vegna frestunar hlaupsins – nema auðvitað þeir komist ekki þann 4. júní á næsta ári. 

Ef þeir vilja hins vegar frekar fá endurgreitt verða þeir að hafa samband við tix.is og hafa til þess næstu tvær vikur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×