Skoðun

Refsi­stríðið: Ó­vönduð af­glæpa­væðing

Baldur Karl Magnússon skrifar

Þessi grein er önnur í röð þriggja um tilraunir til afglæpavæðingar vímuefna á Íslandi. Fyrstu greinina má lesa hér. 

Starfshópur heilbrigðisráðherra um mótun skaðaminnkunarstefnu í vímuefnamálum starfaði í tvö ár frá samþykkt þingsályktunartillögu Pírata vorið 2014 og skilaði ráðherra skýrslu sumarið árið 2016, sem var í kjölfarið dreift á Alþingi. Niðurstöðurnar voru kannski ekki eins afgerandi og margir höfðu vonað. Í henni var að finna margar góðar tillögur, en ekkert sem beinlínis lagði til að afglæpavæða vörslu neysluskammta. Fyrsta tillaga skýrslunnar sneri að því að refsing fyrir vörslu og meðferð ólöglegra vímuefna, þegar um neysluskammta er að ræða, yrði bundin við sektir, þannig að enginn yrði dæmdur til fangelsisvistar fyrir slík brot. Ítrekunaráhrif kæmu til greina og jafnframt yrði heimilt að skilorðsbinda refsingu við meðferð. Innleiðing þessarar tillögu í lög hefði þýtt að í reynd væru vímuefnaneytendur enn brotlegir við lögin og ættu yfir höfði sér sektir vegna vörslu á eigin neysluskömmtum. Þar að auki var lagt til að smávægileg fíkniefnalagabrot færu ekki á sakaskrá, að einungis mæling á blóði gildi um vímuefnaakstur, að bjóða upp á fráhvarfsmeðferð á sjúkrahúsi og fjölbreyttari úrræði fyrir ólíka hópa, aðgengi að hreinum sprautubúnaði og nálaskiptaþjónustu, að gæði vímuefnameðferðar væru tryggð með setningu lágmarksreglna, að taka upp skimanir fyrir HIV og lifrarbólgu C, að opna neyslurými, að bjóða gjaldfrjálsa heilsugæslu fyrir jaðarsetta hópa, að stofna samráðsvettvang vegna vímuefnamála, að tryggja réttindi fanga í neyslu og að efla rannsóknir og forvarnarstarf. Samtals tólf tillögur. Nú um fimm árum seinna hafa nokkrar þeirrar verið innleiddar, þó ekki allar.

Stefnan sem mörkuð var með þessari skýrslu var að mörgu leyti góð og hafði að geyma mikilvægar tillögur um aðgerðir sem grípa þyrfti til. En það sem olli mörgum vonbrigðum var að í henni skyldi ekki lagt til að gengið yrði alla leið í átt að afglæpavæðingu gagnvart neytendum vímuefna. Að afnema fangelsisrefsingar er mikilvægt skref, en svarar ekki þeirri sjálfsögðu kröfu sem þá var farin að heyrast: Að misnotkun vímuefna væri heilbrigðisvandamál, ekki löggæsluvandamál. Leiðin til að draga úr eða stöðva neysluna væri að veita fólki aðstoð frekar en að refsa þeim.

Lof mér að lifa

Þetta viðhorf styrktist til muna á næstu árum, þegar ímynd fíkla tók að breytast. Stór þáttur í þeirri viðhorfsbreytingu var án efa að fjölmiðlar, og sjónvarps- og kvikmyndaframleiðendur hófu að gefa raunsæja og heiðarlega innsýn í líf fíkla, án hræðsluáróðurs og laus við raddbreytingar og hulin andlit eins og hafði verið raunin. Kvikmyndir Baldvin Z, sérstaklega „Lof mér að falla“, kynntu fíkla fyrir almenningi eins og þeir væru þeirra eigin fjölskyldumeðlimur. Heimildarmynd Jóhannesar Kr. Kristjánssonar um fólkið og atburðina að baki myndarinnar, „Lof mér að lifa“ sýndi fólki hver íslenskur raunveruleiki fíkla er. Það getur verið erfitt fyrir samfélag sem hefur hræðst og hatast út í undirheima fíkniefnanna í áratugi að meðtaka að undirheimarnir svokölluðu eru skipaðir venjulegu fólki sem hefur ekki náð að fóta sig í samfélaginu, og er að glíma við áföll, sársauka og geðræn vandamál. En smám saman hefur samfélagið gert það og fólk orðið tilbúnara til að mæta fíklunum sem fólki með samkennd í stað fordóma.

Þessi viðhorfsbreyting var reyndar ekki jafn áberandi á Alþingi. Varsla neysluskammta varðaði ennþá fangelsisvist. Tvær helstu lagabreytingarnar sem fylgdu á næstu árum varðandi skaðaminnkun var annars vegar að þegar ný umferðarlög tóku gildi 1. janúar 2020 yrðu refsingar við vímuefnaakstri aðeins byggðar á mælingum í blóði, ekki þvagi. Hið síðara var þegar frumvarp heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um neyslurými var samþykkt í maí sama ár. Margar af tillögunum úr skýrslu heilbrigðisráðherra frá árinu 2016 voru innleiddar í einhverju formi sem reglugerðir eða bara sem almenn framkvæmd. Frú Ragnheiður rekur nálaskiptiþjónustu og einfalda heilbrigðisþjónustu fyrir fíkla, en verkefnið hefur verið starfrækt síðan árið 2009. Helsti munurinn á því starfi nú og þá er að heimsóknarfjöldi í Frú Ragnheiði hefur aukist gífurlega, en á árunum 2015 til 2019 fjórfaldaðist hann. Smávægileg fíkniefnabrot fara enn á sakaskrá en sektir undir 100.000 kr. koma ekki fram á sakavottorði. Sumar hinna tillagnanna hafa verið innleiddar án sérstakra reglna en almennt séð er erfitt að meta stöðuna í málaflokknum þar sem lítil eða engin eftirfylgni hefur verið með stefnunni.

Kerfislægur mótþrói

Stærsta verkefnið stóð þó enn óhaggað: Að afnema refsingar gagnvart fíklum og vímuefnaneytendum. Strax þegar áðurnefndur starfshópur heilbrigðisráðherra vann að skýrslunni um mótun framtíðarstefnu á sviði skaðaminnkunar og vímuefna kom fram kerfislægur mótþrói gagnvart breytingum og framþróun í átt að skaðaminnkun. Afstaða sem birtist síðar í umsögnum og ummælum embættis landlæknis um afglæpavæðingu virtist vera orðin ráðandi, en í henni fólst að embætti landlæknis taldi sig ekki geta stutt áform um setningu laga sem myndu að einhverju marki auka neyslu eða aðgengi að vímuefnum, nema án undangenginnar mikillar greiningarvinnu, aukinni stefnumótun og áhættumati. Og það þrátt fyrir reynslu annarra ríkja og tilmæli alþjóðastofnana og alveg óháð öllum afleiðingum og samfélagslegum kostnaði. Sú andstaða sem þar birtist varð íhaldssinnuðum stjórnmálamönnum haldreipi um árabil og gaf þeim mjög þægilega og einfalda afsökun fyrir því að standa gegn afglæpavæðingu vímuefna fyrir neytendur og þannig að viðhalda refsivæðingu fíkla.

Með árunum bárust frekari álit alþjóðastofnana þess efnis að afglæpavæðing gagnvart vímuefnaneytendum væri nauðsynlegt og óumflýjanlegt skref til að bregðast við vímuefnavandanum. Árið 2017 gáfu Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin út sameiginlega yfirlýsingu um að það yrði að afglæpavæða neyslu og vörslu neysluskammta vímuefna. Smám saman fóru fulltrúar mótþróans að vera í minnihluta í stjórnkerfinu. En þar voru þeir samt, keikir og óhræddir við að slá enn á frest tilraunum til að berjast fyrir mannréttindum vímuefnaneytenda. Og eins og allir sem hafa nokkra aðkomu haft að baráttunni fyrir bættum aðstæðum fíkla þekkja þá er það barátta upp á lífa og dauða; barátta upp á fjölda mannslífa á hverju ári.

Að taka frumkvæðið

Þegar ljóst var að heilbrigðisráðherra ætlaði ekki sjálfur að framfylgja fyrstu tillögu skaðaminnkunarstefnunnar um afnám fangelsisrefsinga við vörslu neysluskammta tóku nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn málin í sínar hendur. Í október 2019 lagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, fram frumvarp ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Flokks fólksins sem gengi skrefinu lengra og myndi afnema allar refsingar fyrir vörslu fíkniefna þegar magn þeirra væri innan þess sem talist gæti til eigin nota. Rétt eins og alþjóðastofnanir voru þá farnar að kalla eftir og mörg nágrannaríki höfðu þegar gert.

Með samþykkt frumvarpsins hefði það orðið refsilaust að hafa ávana- og fíkniefni í sinni vörslu þegar magn þeirra „væri innan þess sem talist gæti til eigin nota.“ Frumvarpið var mjög einfalt í smíðum, hafði ekki að geyma neina skilgreiningu á neysluskömmtum og hefði einfaldlega fjarlægt hegðunina sem refsiverða úr lögum. Hugmyndin að baki framlagningu þess var að miklu leyti sú að tryggja refsileysi neytenda, allt umfram það væri úrlausnarefni dómstóla eða eftir atvikum löggjafarvaldsins. Skilgreining á því hvaða magn efna teldist „til eigin nota“ færi þá eftir því hvað dómstólar ákvæðu. Alþingi gæti skilgreint betur refsinæmi síðar meir ef þörf væri á. En sú nálgun var auðvitað með þeim ágalla að mjög erfitt væri að gera greinarmun á því hvaða varsla væri til „eigin neyslu“ og hvaða varsla væri til dreifingar eða endursölu byggt á magni efnanna. Útfærslan var þó ekki fordæmalaus, en Tékkland hafði nokkrum árum áður farið svipaða leið í afglæpavæðingu neysluskammta, þar sem löggjafinn skilgreindi einfaldlega að varsla á „litlu magni“ efna skyldi vera refsilaus. Framkvæmd laganna reyndist nokkuð flókin og að endingu skilgreindi hæstiréttur landsins tiltekið magn sem skyldi miða við fyrir hvert efni.

Þessi aðferðafræði afglæpavæðingar átti sér einnig fyrirmynd hér á landi enda byggði hún að hluta til á sambærilegri leið sem hafði verið farin nokkrum árum áður í „sterafrumvarpinu” svokallaða. Þá hafði þáverandi heilbrigðisráðherra, Óttar Proppé, lagt til að gera vörslu og meðferð stera, hormónalyfja og annarra sambærilega efna refsiverða að viðurlagðri fangelsisvist. Í þágu þess að bæta ekki þessum nýja vígvelli í stríðið gegn fíkniefnum vann Halldóra Mogensen tillögu um að varsla og meðferð efnanna skyldi aðeins vera refsiverð þegar haldlagt magn efna væri umfram það sem talist geta 10 dagskammtar og efnin væru ætluð til eigin neyslu. Þetta orðalag rataði að endingu inn í framhaldsnefndarálit velferðarnefndar, en ekki náðist að ljúka málinu á þinginu og féll ríkisstjórnin skömmu síðar. Sambærilegt frumvarp var lagt fram í tíð næstu ríkisstjórnar, og varð að lögum í júní 2018, þá með eftirfarandi orðalagi: „Varsla eða meðferð efna og lyfja skv. 2. gr. skal aðeins vera refsiverð þegar haldlagt magn efna er umfram það sem talist getur til eigin neyslu.“ Tíu daga viðmiðið var farið út, en í stað þess var komin í lög fyrirmynd af því hvernig afglæpavæðing neysluskammta allra vímuefna gæti síðar farið fram. Þessi útfærsla lá svo til grundvallar þegar Halldóra Mogensen lagði fyrst fram frumvarpið sitt um afglæpavæðingu allra neysluskammta rúmu ári síðar.

Það varð fljótt ljóst við meðferð þingmálsins um afglæpavæðingu haustið 2019 að ekki yrði þrautalaust að koma því í gegnum þingið. Jafnvel þó að þingmenn úr fimm flokkum hefðu gerst meðflutningsmenn þess, þar á meðal þingmenn úr flokki forsætis- og heilbrigðisráðherra, mætti það mikilli andstöðu í þinginu og margvíslegri gagnrýni. Hluti af gagnrýninni sneri að útfærslunni sem lögð var til í frumvarpinu og var hægt að bregðast við. Mest af gagnrýninni innihélt þó aðallega hræðsluáróður gagnvart vímuefnum og fordóma gagnvart fíklum, mjög í takt við nálgun stjórnmála áranna áður. Í andstöðu Alþingis endurspeglaðist tregða stjórnmálanna til að bregðast við og taka breytingum í takt við samfélagsbreytingar. Málið fór engu að síður í sína hefðbundnu meðferð, var vísað til velferðarnefndar og beiðnir um umsagnar sendar út.

Afstaða samfélagsins

Umsagnirnar sem bárust voru nokkuð fjölbreyttar. Stuðningur barst frá félögum á borð við Snarróttina, Afstöðu – félagi fanga, Rauða krossinum á Íslandi og Rótinni – félagi um málefni kvenna. Andstaða kom fram frá ýmsum bindindissamtökum og flestum sem tengdust starfi bindindishreyfingarinnar IOGT. Ríkissaksóknari kom með gagnrýni um ýmsa ágalla sem hann sá á frumvarpinu auk þess sem hann lýsti því yfir að ekki væri tímabært að taka það skref sem samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér. Mestum áhyggjum olli þó umsögn embættis landlæknis, sem þó var ekki undirrituð af landlækni sjálfum heldur af verkefnisstjóra áfengis- og vímuvarna embættisins.

Í umsögn embættis landlæknis var viðurkennd aukin alþjóðleg áhersla á að horfa frá refsistefnu og að horfa frekar á vandann sem heilbrigðismál, án þess þó að vísa til áðurnefndrar samþykktar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2017. Embættið taldi nauðsynlegt að svara ýmsum spurningum áður en að varsla neysluskammta yrði afglæpavædd. Hvaða áhrif myndi breytingin hafa á viðhorf ungmenna? Myndi breytingin leiða til aukinnar notkunar? Í ljósi þess að þegar hafði verið afglæpavætt í mörgum nágrannaríkjum hefði starfsmönnum embættisins verið í lófa lagið að kynna sér til hlítar þróunina í þeim löndum þar sem afglæpavætt hefði verið og kanna raunverulegar afleiðingar. Þess í stað var vísað í eina 15 ára gamla vísindagrein og svo fjallað um meinta aukningu á neyslu ungmenna í Portúgal og í Hollandi í Evrópsku vímuefnarannsókninni (ESPAD). Tilvísun í rannsóknina er vafasöm í fyrsta lagi vegna þess að Holland hefur ekki afglæpavætt neyslu vímuefna, heldur lögleitt neyslu kannabis - sem er allt annar og raunar óskyldur hlutur, og í öðru lagi gáfu árin sem miðað var við alls ekki raunsæja mynd af áhrifum afglæpavæðingar. Miðað var við neyslu ungmenna árið 1995 og hún borin saman við árið 2015 – og þar með var sú staðreynd algjörlega hunsuð að heróínfaraldurinn sem reið yfir Portúgal fór ekki á flug fyrr en eftir 1995. Auk þess hefur vímuefnaneysla ungmenna hefur aukist jafnt og þétt um allan heim á þessu sama tímabili. Enn fremur voru valin út einstök árabil til að sýna aukningu á neyslu einstakra efna, bæði í Portúgal og í Hollandi, en heildarmyndin hunsuð. Eins var litið fram hjá þeirri staðreynd að fræðasamfélagið er almennt sammála um að portúgalska leiðin hefur borið árangur í að minnka skaðann af neyslu vímuefna.

Í umsögninni var eftirfarandi tekið fram: „Embættið ítrekar því afstöðu sína til þess að tekið verði á þessari tillögu og málaflokknum í heildrænni stefnumótun til framtíðar.“ Hér kallaði embættið eftir því að áður en stigið væri skref um að afglæpavæðingu verði farið í heildræna stefnumótun. Í umsögninni er sú staðreynd hunsuð að starfshópur ráðherra um heildræna stefnumótun í skaðaminnkun hafði lokið störfum rétt um þremur árum áður. Höfundur umsagnarinnar átti meira að segja sæti í starfshópnum þar sem hann kom sínum sjónarmiðum á framfæri og var fullmeðvitaður um stefnumótunartillögur hópsins til ráðherra. Það má því velta því upp hver raunverulegur tilgangur ákallsins um heildræna stefnumótun hafði verið, því það er augljóst að sú stefnumótun lá þegar fyrir.

Að lifa eða deyja í nefnd

Þessar umsagnir höfðu mikil áhrif í þinginu. Ekki síst umsögn embættis landlæknis, sem þingmenn meiri hlutans beittu mikið fyrir sig sem ástæðu til þess að ekki væri hægt að afgreiða þingmálið úr nefnd.

En það höfðu fleiri umsagnir áhrif en bara þær neikvæðu. Svo vildi til að á sama tíma og málið var til meðferðar hjá velferðarnefnd var Johann Hari, höfundur bókarinnar Chasing the Scream (þýdd á íslensku af Halldóri Árnasyni, Að hundelta ópið) staddur á landinu. Bók hans fjallaði um upphaf og möguleg endalok stríðsins gegn fíkniefnum. Hann kom á fund velferðarnefndar þann 13. nóvember 2019 og fjallaði um leiðir til afglæpavæðingar í ljósi sinnar ríku reynslu af málaflokknum. Á sama fund velferðarnefndar komu reyndar einnig fulltrúar frá embætti landlæknis til að svara fyrir sína umsögn, auk fulltrúa úr dómsmálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu, þannig að umræðurnar hafa eflaust verið fjölbreyttar á þessum lokaða fundi.

Svala Jóhannesdóttir, Halldóra Mogensen, Valgerður Rúnarsdóttir og Johann Hari í panelumræðum um afglæpavæðingu í Háskóla Íslands í nóvember 2019.

Halldóra Mogensen, flutningsmaður málsins, hélt áfram að vinna við málið og vann ítarlegt nefndarálit sem hafði að geyma tillögur um breytingar sem komu til móts við nær allar athugasemdir og tillögur umsagnaraðila. Í þeim var lagt til að gefa ráðherra heimild til að skilgreina neysluskammta í reglugerð og ítarlega farið yfir hvernig hægt væri að vinna að slíkri skilgreiningu með hliðsjón af reynslu annarra landa. Lögreglu var gefin heimild til að taka vímuefni af ungmennum. Sett var inn ákvæði um starfshóp til að fylgja afglæpavæðingunni úr höfn og leggja mat á árangur og áhrif með skaðaminnkun að leiðarljósi. Tryggt var refsileysi fyrir notendur lyfseðilsskyldra lyfja rétt eins og notendur ólöglegra vímuefna. Að baki þessu nefndaráliti stóðu þrír þingmenn minni hluta velferðarnefndar, þau Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Þrátt fyrir andstöðu nefndarmanna meiri hlutans tókst þeim að koma málinu úr nefnd og til umræðu í þingsal. Reyndar þurfti að ganga til samninga í hinum svonefndu „hrossakaupum“ sem eiga sér oft stað í þinglok þar sem þingflokkar minni hlutans fá í gegn takmarkaðan fjölda mála gegn loforði um að hleypa málum ríkisstjórnarinnar í gegn án of mikillar fyrirhafnar. Krafa Pírata í þeim viðræðum var einfaldlega að fá málið úr nefnd og til umræðu og atkvæðagreiðslu í þingsal.

Valið og hafnað í þingsal

Önnur umræða um málið í þingsal hófst kl. 22:40 þann 29. júní. Umræðan hófst á því að Halldóra Mogensen lýsti nefndaráliti sínu og þeim breytingum sem lagðar voru til á málinu til að koma til móts við umsagnaraðila. Ræðuna hóf hún á eftirfarandi orðum:

„Ég sat lengi við tölvuna áðan að reyna að finna orð til að lýsa því hversu mikilvægt þetta mál er og hversu mikilvægt er að vinda ofan af þeirri ómannúðlegu refsistefnu sem hefur verið við lýði í tugi ára og þjáningunni sem stefnan hefur valdið. Mannslíf hafa tapast og mikill kostnaður hefur hlotist af þessu fyrir samfélagið allt.“ Eftir fylgdi 26 mínútna innblásin ræða um nauðsyn málsins og svo í kjölfarið fleiri innblásnar ræður frá öðrum stuðningsmönnum málsins. Eini þingmaðurinn sem mælti á móti málinu í umræðunni var Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem hafði lagt til að málinu yrði vísað frá því það þyrfti frekari vinnslu. En engin rök komu þar fram frá meirihlutanum um að fella ætti málið. Þau komu síðar, þegar málið var tekið til atkvæðagreiðslu.

Nokkrum klukkustundum síðar, eða kl. 01:36 var málið tekið til atkvæðagreiðslu eftir 2. umræðu. Fyrst voru greidd atkvæði um frávísunartillögu Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, sem var felld með 18 atkvæðum gegn einu, en 36 sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Því næst voru teknar til atkvæða breytingartillögur Halldóru Mogensen, Helgu Völu Helgadóttur og Guðmundar Inga Kristinssonar. Í þeim fólust nákvæmlega þær úrbætur á frumvarpinu sem kallað hafði verið eftir. En nú streymdu loks þingmenn meirihlutans í ræðustól til að útskýra af hverju ómögulegt væri að samþykkja þessar breytingar, og þar með þetta frumvarp.

Þórunn Egilsdóttir reið á vaðið fyrir Framsóknarflokkinn: „Því miður er þetta frumvarp ekki nægilega vandað. Samfélagsleg umræða hefur ekki átt sér stað. Samráð og samtal við lögreglu og heilbrigðisstéttir hefur ekki farið fram sem nokkru nemur.“

Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður velferðarnefndar fyrir VG: “Á fundum nefndarinnar kom fram hjá gestum að málið væri ekki tilbúið til samþykktar.“

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði: „Markmiðið er göfugt og tilgangurinn er góður en frumvarpið er vont.“ Þegar hér var komið við sögu kallaði þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, fram í og spurði Pál: „Að hvaða leyti?“ Páll bað Helga bara að leyfa honum bara að gera grein fyrir sínu atkvæði og sagði þá: „Það er illskiljanlegt að Píratar skuli vilja knýja fram atkvæðagreiðslu um þetta gallaða frumvarp um þetta mikilsverða mál. Því miður sýnir það bara eitt: Þeim er meira í mun og meira umhugað um að vinna áróðursstríðið í málinu, hugsanlega í tveimur eða þremur fréttatímum, heldur en að leiða málið farsællega til lykta í samræmi við eigin markmið.“

Þá var komið að ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagði: „En það er erfitt að segja að frumvarpið sjálft sé orðið fullþroskað. Svona mál krefst mikils undirbúnings og má nefna ýmis dæmi um það sem upp á vantar. Eitt er t.d. að refsiréttarnefnd var ekki gefið tækifæri til að skila inn umsögn, en hlutverk hennar er einmitt að fylgjast með þróun á sviði refsiréttar.“

Svör meirihlutans um að vinna þyrfti málið betur hafði að vettugi sjö mánaða vinnu velferðarnefndar við frumvarpið og átta blaðsíðna nefndarálit ásamt breytingartillögum sem komu til móts við langflestar athugasemdir umsagnaraðila og gesta.

Breytingartillagan, sem einmitt var til þess gerð að koma til móts við þá galla sem þingmenn meirihlutans höfðu kvartað undan, var felld með 23 atkvæðum gegn 18, en 14 þingmenn sátu hjá og 8 voru fjarstaddir. Helgi Hrafn Gunnarsson benti þingheimi á að hér væri um að ræða breytingar sem væru „lagðar fram til þess að bæta málið og koma til móts við þær áhyggjur sem fólk ber fyrir sig til að vera á móti málinu. Að greiða atkvæði gegn þessum breytingum er beinlínis að greiða atkvæði með því að málið verði verra, samkvæmt þeim sem eru á móti málinu, sem og þeim sem eru með því, og er því röklaust með öllu. Þetta eru jákvæðar breytingar að mínu viti og öllum sem hér eru inni, hvað sem þeim finnst síðan um að samþykkja frumvarpið sjálft eða ekki.“

Þegar breytingartillagan var felld var 1. gr. frumvarpsins borin upp til atkvæða, og var hún sömuleiðis felld, með 28 atkvæðum gegn 18. Þegar 1. gr. frumvarpsins var fallin lýsti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, því yfir: „er þar með frumvarpið fallið og kemur ekki frekar til atkvæða né við sögu á þessu þingi.“ Þar með lauk þessari tilraun til afglæpavæðingar vímuefna.

Þessi grein er önnur í röð þriggja um tilraunir til afglæpavæðingar vímuefna á Íslandi.

Höfundur er lögfræðingur og starfsmaður þingflokks Pírata.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×