Skoðun

Síbreytileiki sóttvarnaraðgerða

Gunnar Ingi Björnsson skrifar

Það er óhætt að segja að Covid-19 hafi skapað nýjan raunveruleika fyrir okkur öll. Þjóðríki standa frammi fyrir erfiðum úrlausnarefnum. Hvernig á að haga málum þannig hægt sé að viðhalda þeirri samfélagsmynd sem mótast hefur í hverju landi? Læknisfræðin mun efalaust ná stjórn á Covid-19 en hversu langan tíma mun það taka? Er hinn nýi raunveruleiki sá að gera þarf ráð fyrir því að sambærilegir faraldrar spretti upp aftur og jafnvel aftur?

Ísland er þar engin undantekning og stendur frammi fyrir sömu spurningum. Bráðlega verða komir 18 mánuðir frá því að fyrst heyrðist af nýjum vírus og varla hafa það verið margir Íslendingar sem rennt hefur í grun hvaða afleiðingar þær fréttir myndu hafa. Fyrstu 6 mánuði faraldursins einkenndust af mikill samstöðu. Síðustu 12 mánuðir hafa hins vegar litast af aukinni sóttvarnarþreytu og fleiri nýyrðum. Endurteknar tilraunir til þess að aflétta kvöðum og viðhalda því samfélagi sem við best þekkjum hafa gengið erfiðlega af ýmsum ástæðum.

Ábyrgð stjórnvalda

Í dag ríkir ekki samfélagsleg sátt um hvaða leiðir skuli fara í þeirri stöðu sem er komin upp. Mismunandi sjónarmið heyrast og eins og svo oft þegar staðið er andspænis vondri stöðu virðist sem ekkert sé alveg rétt og ekkert sé alveg rangt. En þá reynir á þá aðila sem með völdin fara. Á þeim stundum er mikilvægt að reyna ekki að þóknast öllum heldur velja þær leiðir skila sem mestum ávinningi og sem mest sátt ríkir um. Köllum það skýra málamiðlun.

Nú er svo komið að nauðsynlegt er að gera kröfu á stjórnvöld að marka leið og stefnu og setja fram slíka skýra málamiðlun. Reynslu síðustu 18 mánaða þarf að nýta til þess að ákveða hvernig við ætlum að standa að málum. Ekki er lengur hægt að leggja á þjóðina að taka við óskýrum og síbreytilegum minnisblöðum og reglugerðum. Setja þarf skýrar reglur og framfylgja þeim svo. Reglurnar þurfa vissulega að geta breyst eftir því hvernig staða mála breytist. En þær breytingar verða að vera fyrirsjáanlegar og skapa hinum almenna borgara sem best lífskilyrði á viðsjárverðum tímum.

Skýrar línur og fyrirsjáanleiki

Hvað á ég við? Jú, við þurfum sem dæmi að ákveða hvernig haga beri opnun landamæra þegar sambærilegur alheimsfaraldur ríkir. Við þurfum að ákveða hvort við stefnum að veirulausu landi eða hvort við viljum „fletja kúfinn“. Við þurfum að skapa fyrirtækjunum í landinu rekstrarskilyrði sem þau geta skilið og skipulagt eftir. Við þurfum að hætta að flokka starfsemi niður eftir því hvort afþreyingin er leikrit eða íþróttir, inni eða úti. Við getum ekki haft veitingastaði sem selja bjór og hamborgara opna en þá sem selja bara bjór lokaða. Við verðum að setja fram reglur sem eru eins almennar og mögulegt er og við verðum að geta fært sannfærandi rök fyrir þeim.

Ég get alveg haft mína skoðun á því hvernig reglur sem þessar eru. Þær geta farið í taugarnar á mér og valdið mér ama. Ég verð að taka því. En ekkert veldur mér eins miklum ama og síbreytilegar reglur. Slíkur ami er að mínu mati einnig fullkomlega óþarfur. Síðasta sumar lofuðu sóttvarnaryfirvöld litakerfi fyrir Ísland þar sem mismunandi hættustig kallaði á mismunandi aðgerðir. Hvað varð um þetta litakerfi og hvað varð um þennan fyrirsjáanleika í þeim aðgerðum sem gripið er til hverju sinni? Er það yfirvöldum um megn að setja niður eitt kerfi með fyrirsjáanlegum aðgerðum og reglum og viðhalda því kerfi eins og þörf krefur?

Hækkandi refsing er samfélagsleg krafa

Eins er hægt að spyrja sig ýmissa spurninga um hvernig stjórnvöld ætla að meðhöndla brot á sóttvarnarlögum. Ef ég brýt umferðarlög og keyri of hratt eða fer yfir á rauðu ljósi má ég fastlega búast við sekt. Eðlilega. Þetta vita allir, og gildir um alla, hvort sem þeir eru bornir og barnfæddir í Njarðvík, Gdańsk eða Seattle. Engu skiptir hvort þeir eru ferðamenn eða með fasta búestu á Íslandi og jafnvel ríkisborgarar. Ef svo illa fer fyrir einhverjum að valda öðrum miska, eða jafnvel dauða, með slíku broti má búast við því að ákæra verði gefinn út á hendur viðkomandi og hann hljóti dóm fyrir. Ef brot eru ítrekuð eða alvarleg hefur það þau áhrif að dómurinn þyngist í takt við alvarleika brotanna.

Það er mér ómögulegt að sjá muninn á því að brjóta lög og reglur um sóttkví og einangrun eða lög og reglur um akstur. Ég get ekki séð muninn á því að forðast að svara símtölum frá yfirvöldum varðandi sóttkví og einangrun eða neita að stöðva för sína þegar yfirvöld setja á ljós og sírenur og fyrirskipa stöðvun vegna umferðarlagabrota. Brot á reglum sem þessu tel ég að eigi að meðhöndla með sambærilegum hætti og raunar geri ég kröfu sem almennur borgari að slíkt sé gert. Mér er alveg sama hvort viðkomandi er með íslenskan víkingabeinmerg eða er nýlega fluttur til landsins. Það einfaldlega skiptir engu máli.

Af einhverjum ástæðum er í dag horft mildari augum á brot á sóttvarnarlögum en öðrum brotum. Varla er andrúmsloftið rétt til þess að gera það áfram og nauðsynlegt að meðhöndla slík brot af meiri alvöru og festu gert hefur verið fram til þessa.

Skipuleggjum til framtíðar

Covid-19 hefur haft í för með sér gríðarlega skerðingu á lífsgæðum almennings um heim allan og því miður hefur verið þörf á því. Um það er ekki deilt og það á ekkert síður við Ísland en önnur lönd. Vernd þeirra sem viðkvæmir eru tekur forgang og ég eins og aðrar manneskjur verð og mun beygja mig undir það.

En eitt þarf ekki að útiloka annað og ég skora núna á að yfirvöld að ná meira samræmi og setja fram skýrari reglur um sóttvarnir og samfélagsleg viðmið. Ekki síst þar sem leiða má líkum að því að Covid-19 verði ekki síðasti alheimsfaraldurinn sem gengur yfir heiminn og mikilvægt að finna leiðir til að viðhalda samfélaginu okkar eins vel og mögulega er hægt að gera við slíkar aðstæður.

Höfundur er almennur borgari.




Skoðun

Sjá meira


×