Skoðun

Nýju fötin keisarans

Rúnar Gunnarsson skrifar

Enn á ný eru reglur um klæðaburð þingmanna til umræðu. Þar fer mikinn þingmaður Miðflokksins sem finnst óboðlegt að hleypa fólki inn í þingsali nema það sé upp klætt og með hálstau. Hann talar um að þetta snúist um virðingu en ég ber ekki mikla virðingu fyrir málflutningi Miðflokksins þó þar séu sannarlega jakkafataklæddir menn á ferðinni. Mér persónulega finnst það mikilvægara að þingmenn vinni störf sín með sæmd þó svo að þeir séu bindislausir. Í svari við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar á 148. löggjafarþingi 2017-2018 segir forseti Alþingis meðal annars „Þá er venja að alþingismenn klæðist formlegum og snyrtilegum klæðnaði á þingfundum“ og „Þá er að lokum rétt að benda á að hefðir og venjur breytast í tímans rás. Sumt leggst af en annað kemur í staðinn.”. Þess vegna þarf snyrtilegur klæðnaður ekki endilega að vera jakkaföt og bindi, það er vel hægt að vera snyrtilegur í gallabuxum og skyrtu þó svo að engin sé jakkinn. Er það grafalvarlegt að koma jakkalaus í ræðupúlt? Gerir það þingmann Miðflokksins betri í sínu starfi að vera með bindi eða hvað? Mér hefur sýnst að þeir sem hafa stigið bindislausir í pontu á Alþingi hafi bara staðið ágætlega fyrir sínu máli. Og flestir vita hvar fötin þeirra eru ólíkt þingmanni einum úr Miðflokknum sem vaknaði buxnalaus eftir setu á Klausturbar (væntanlega þó enn með bindið).

Ég held að nú sé tíminn til að koma Alþingi inn í samtímann og gera þingmönnum kleift að vera þægilega klæddir, um leið og þeir eru snyrtilega klæddir, og sleppa því að gera steinaldarlegar kröfur um klæðaburð. Leyfum þingmönnum að vinna sín störf með sóma með því að leyfa klæðaburði að verða nútímalegri og í takt við tíðarandann.

Höfundur er bindislaus og á náttbuxum við þessi skrif, ásamt því að gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×