Skoðun

Kæri lög­reglu­stjóri!

Friðrik Sigurðsson skrifar

Sæl Halla Bergþóra, velkomin sértu til starfa sem lögreglustjóri hjá okkur á Höfuðborgarsvæðinu. Mig langaði til að senda þér smá línu, héðan úr efri byggðum Kópavogs, hvar búa og starfa hátt í 10 þúsund manns. Við sem hér búum höfum af því talsverðar áhyggjur hvernig umferðarmálum háttar, þá sérstaklega höfum við áhyggjur af umferð á skellinöðrum og rafmagnsvespum, sem stýrt er af nýjustu ökumönnunum í hverfinu. Í mörgum tilfellum virðast þeir ofmeta eigin reynslu og akstursgetu og vanmeta eigin hraða, bæði á götum og göngustígum. Ég velti því upp hvort þú gætir ekki sett nokkurn hóp af þínu fólki í það að leiðbeina þessum ágætu ungu ökumönnum hvernig best er að bera sig að við meðhöndlun á þessum tækjum. Jafnvel bara að vera meira sýnileg á svæðinu gæti hjálpað til. Mín reynsla er sú að þegar skólar hefjast í ágúst er mest um að vera og áhættan því meiri á þeim tíma.

Ég hef trú á því að ef þitt fólk væri enn sýnilegra í efri byggðum gæti það einnig haft áhrif á rán og rupl á svæðinu, fyrir utan hvað það væri ánægjulegt fyrir okkur íbúana að hafa ykkur í hverfinu.

Þú skoðar þetta nú endilega fyrir okkur. Vertu svo hjartanlega velkomin í efri byggðir Kópavogs við fyrsta tækifæri.

Höfundur er formaður Viðreisnar í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×