Skoðun

Hvar er Namibíu­skýrslan?

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Ríflega hálft ár er nú frá því að Alþingi samþykkti tillögu Viðreisnar um að sjávarútvegsráðherra léti vinna fyrir þingið skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi. Að beiðninni stóðu jafnframt þingmenn Samfylkingar og Pírata. Alla jafna eru skýrslubeiðnir samþykktar einróma, enda mikilvægur hluti af eftirlitshlutverki Alþingis – en ekki þessi beiðni. Sjö þingmenn stjórnarflokkanna kusu gegn beiðninni, einn frá Framsókn og sex frá Sjálfstæðisflokknum, þeirra á meðal fjármálaráðherra. Það er ekki á hverjum degi sem ráðherra leggur á þann hátt stein í götu þingmanna sem hyggjast sinna eftirlitshlutverki sínu.

Skýrslubeiðnin var nú samt samþykkt og í kjölfarið var Hagfræðistofnun Háskóla Íslands falið að vinna skýrsluna. Tilgangurinn var í sem stystu máli sá að varpa ljósi á það hvort gjaldið sem útgerðin greiðir fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni á Íslandi sé sambærilegt við það sem útgerðin greiðir á erlendum hafsvæðum. Að gefnu tilefni var samburðarhafsvæðið við Namibíu að þessu sinni.

Reglum samkvæmt hefur viðkomandi ráðherra 10 vikur til að skila skýrslum, eftir að beiðni um slíkt hefur verið samþykkt. Nú eru vikurnar orðnar 26 og það er ekkert að frétta. Hagfræðistofnun hefur reyndar fyrir þó nokkru síðan lokið vinnu sinni. Samkvæmt mínum upplýsingum lá skýrslan um tíma í sjávarútvegsráðuneytinu þar til henni var skilað til þingsins, eftir að sumarfrí hófust. Löngu eftir að 10 vikna fresturinn var liðinn. Nú bíður skýrslan undir stól og enginn fær aðgang að henni fyrr en formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, boðar til nefndarfundar svo hægt sé að gera skýrsluna opinbera. Það verður að segjast að nefndarfundir hafa í gegnum tíðina verið boðaðir af mun minna tilefni en þessu.

Nú þegar málefni Samherja eru enn og aftur í deiglunni verður þessi atburðarás enn meira sláandi og sú spurning enn áleitanari en áður, hvort stjórnarflokkunum þyki efni skýrslunnar ekki eiga erindi í umræðuna. Er enn ein skýrslan undir stól þeirra kannski sumargjöfin í ár?

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×