Erlent

Ísrael og furstadæmin ná sögulegu samkomulagi

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, opinberaði tilvist samkomulagsins í dag. Við hlið hans standa David Friedman, sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael, og Jared Kushner, tengdasonur Trump og ráðgjafi hans.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, opinberaði tilvist samkomulagsins í dag. Við hlið hans standa David Friedman, sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael, og Jared Kushner, tengdasonur Trump og ráðgjafi hans. AP/Andrew Harnik

Ríkisstjórnir Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmanna hafa náð sögulegu samkomulagi um að bæta samband ríkjanna og koma á formlegum samskiptum þeirra á milli. Ríkisstjórn Donald Trump, Bandaríkjaforseta, miðlaði málum á milli ríkjanna tveggja sem hafa eldað grátt silfur sín á milli um árabil, opinberlega.

Á bakvið tjöldin hafa ríkin þó um nokkuð skeið átt í samstarfi sem beinst hefur gegn Íran.

Furstadæmin verða nú þriðja arabaríkið og það fyrsta við Persaflóa, sem hefur hefðbundin samskipti við Ísrael.

Trump, sem opinberaði samkomulagið í dag, sagði það fela í sér að Ísraelar hætta við að innlima tiltekin svæði. Heimildarmenn Reuters fréttaveitunnar segja að þar sé um að ræða svæði á Vesturbakkanum.

Samkomulagið var innsiglað í símtali á milli Trump, Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og Mohammed Bin Zayed, krónprins Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Trump sagði einnig að þeir þrír myndu koma saman í Hvíta húsinu á næstu vikum og skrifa undir samkomulagið.

Á blaðamannafundi í dag sagði Trump að viðræður ríkjanna hefðu verið erfiðar á köflum. Hann sagði einnig að sambærilegar viðræður við önnur ríki á svæðinu stæðu yfir.

Ap fréttaveitan segir samkomulagið hafa fengið blendnar móttökur í Palestínu. Palestínumenn hafa lengi treyst á stuðning Arabaríkja og Hanan Ashrawi, háttsettur embættismaður í Palestínu, skrifaði á Twitter að verið væri að verðlauna Ísrael fyrir ólöglegt athæfi þeirra í Palestínu.

Hamassamtökin, sem stjórna Gasa, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að með samkomulaginu séu furstadæmin að stinga Palestínumenn í bakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×