Körfubolti

Sigur á Kýpur og Ísland lendir í öðru sæti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
mynd/kkí
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta lenti í öðru sæti á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi eftir 18 stiga sigur á Kýpur í lokaleik liðsins.

Það voru Kýpverjar sem byrjuðu leikinn betur og leiddu 21-13 eftir fyrsta leikhluta. Íslenska liðið náði hins vegar að saxa á forskotið í öðrum leikhluta og voru þær aðeins stigi undir í hálfleik 37-38.

Stígandinn var áfram með íslenska liðinu sem komst 54-48 yfir í lok þriðja leikhluta og vann að lokum leikinn 80-62.

Stigaskor íslenska liðsins dreifðist nokkuð jafnt, Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst með 16. Þær Gunnhildur Gunnarsdóttir og Hallveig Jónsdóttir voru næstar með 13 stig hvor.

Íslenska liðið vann því fjóra af fimm leikjum sínum á leikunum, eina tapið kom gegn gríðarsterku liði Svartfjallalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×