Körfubolti

Luka fram­lengir til þriggja ára í Los Angeles

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kann vel við sig í Los Angeles og verður þar áfram.
Kann vel við sig í Los Angeles og verður þar áfram. Katelyn Mulcahy/Getty Images

Ofurstjarnan Luka Dončić hefur skrifað undir þriggja ára samning við Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta. Samningurinn hljóðar upp á 165 milljónir Bandaríkjadala – rúma tuttugu milljarða íslenskra króna.

Hinn 26 ára gamli Luka kom nokkuð óvænt til Lakers í skiptum fyrir Anthony Davis, Max Christie og valrétt í fyrstu umferð nýliðavalsins árið 2029. Skiptin eru ein þau óvæntustu í sögu NBA-deildarinnar.

Þrátt fyrir ágætis spilamennsku duttu Luka, LeBron James og félagar í Lakers út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þá var ekki vitað hvað Luka myndi gera í sumar þegar hann yrði samningslaus. Það er nú komið á hreint.

Luka framlengir í Los Angeles og verður í kjölfarið aðalmaður liðsins og jafnvel deildarinnar sjálfrar.

Í 28 leikjum með Lakers skoraði Luka að meðaltali 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Forráðamenn Lakers vonast eflaust eftir enn betri frammistöðu enda virðist Slóveninn ætla að koma til baka í fanta formi.

Lakers mætir með nokkuð breytt lið til leiks í haust. Marcus Smart og DeAndre Ayton eru mættir og gætu báðir orðið byrjunarliðsmenn ásamt Luka, LeBron og Austin Reaves. Þá er Dorian Finney-Smith farinn til Houston Rockets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×