Skoðun

Að breyta gróðurhúsalofti í grjót

Berglind Rán Ólafsdóttir skrifar
Við könnumst við að snjallir smalar eða heimasætur blekki tröll svo þau verði að steini. Það er kannski einmitt það sem við erum að gera við Hellisheiðarvirkjun á hverjum degi; 35 tonn af tröllum á dag.

Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun 21. aldarinnar og því eðlilega áberandi í umræðunni í dag. Í byrjun maímánaðar lýsti breska þingið yfir neyðarástandi í loftlagsmálum og Landvernd hefur skorað á íslensk stjórnvöld að gera hið sama. Þá hefur loftslagsverkfall hinnar 16 ára gömlu Gretu Thunberg vakið verðskuldaða athygli og ungmenni um allan heim, þar á meðal hér á landi, fetað í fótspor hennar.

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru á allra vörum en það getur virst óyfirstíganlegt að finna lausnir á vandanum sem blasir við. Það er því hvetjandi að hugsa til þess að ein af lausnunum er rétt við bæjardyrnar, þróuð af íslensku vísindafólki.

Ein af þeim gróðurhúsalofttegundum sem losnar út í andrúmsloftið í miklu magni hér á landi er koltvíoxíð. Þessi lofttegund er helsta orsök hlýnunar jarðar og Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt til aukinna aðgerða til að fanga koltvíoxíð og farga því. Um einmitt það snýst CarbFix verkefnið við jarðgufuvirkjun Orku náttúrunnar á Hellisheiði.

CarbFix verkefnið hefur verið í vinnslu í rúm tólf ár hjá því framúrskarandi vísinda-, tækni- og iðnaðarfólki sem við búum að í samstarfi við alþjóðlegan hóp vísindamanna. Verkefnið snýr að þróun og prófun þeirrar hugmyndar að hægt sé að taka koltvíoxíð, sem kemur upp með jarðhitavökva, blanda því við vatn og dæla aftur niður í jörðina, þaðan sem það kom, þar sem það breytist í stein. Þessu fylgja verulega jákvæð umhverfisáhrif og CarbFix verkefnið er mikilvægur þáttur í markmiði ON að minnka kolefnisspor sitt um 60% fyrir árið 2030.

Þetta hefur gengið vonum framar og vakið mikla athygli, bæði innan og utan landsteinanna. Um 400 alþjóðlegir fjölmiðlar hafa fjallað um CarbFix, þar á meðal BBC, New York Times og Reuters. Þessi alþjóðlegi áhugi er skiljanlegur því í þessari byltingarkenndu aðferð felast verulegir möguleikar til framtíðar, ekki aðeins fyrir ON, heldur einnig önnur jarðvarmafyrirtæki, iðnað á Íslandi og annarsstaðar í heiminum.

Við hjá ON viljum vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, eða loftslagshamförum, eins og trúlegast er réttara að kalla þær, og CarbFix verkefnið er þar mikilvægt innlegg. Grundvöllur verkefna sem þessa er stöðugt samtal og stuðningur frá öllum viðskiptavinum okkar. Við hjá ON erum stolt af þessu verkefni og munum halda ótrauð áfram í að leita sífellt betri lausna í umhverfismálum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×