Gerir tillagan ráð fyrir því að tilgreint verði hvernig tekjuskattur einstaklinga skiptist milli ríkis og sveitarfélaga. Einnig verði tilgreind sú fjárhæð sem launagreiðandi greiðir í tryggingagjald og önnur launatengd gjöld.
Áslaug Arna segir áhugavert að allir launamenn sem hafi undir 745 þúsund krónum í mánaðartekjur borgi stærri hluta tekjuskatts til sveitarfélaga en til ríkisins.
„Á sama tíma og ríkið hefur verið að minnka skattbyrði, fækka skattþrepum og lækka lægsta þrepið eru sveitarfélögin að hækka sitt útsvar,“ segir Áslaug Arna.
Hún segir að þótt verkefni sveitarfélaga séu ærin þurfi að vera krafa á þau að forgangsraða fjármunum í grunnverkefni. Þannig geti þau stefnt að því að lækka skattbyrði á vinnandi fólk sem gæti orðið innlegg í kjaramálin.
„Það er mikilvægt að við komum öll að kjaramálunum. Við viljum öll gera betur við þá sem hafa lægstu launin. Við erum hér að leggja fram skattatillögur en það er ekki bara hægt að horfa á ríkið þegar kemur að því að bæta lífskjör fólks.“
Þar séu margir þættir sem snúi að sveitarfélögum, ekki síst húsnæðismálin og gjaldskrár sveitarfélaga.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að eigi sveitarfélögin að koma að lausn kjarasamninga með skattalækkunum þurfi að svara því hvaða þjónusta verði skorin niður. „Það eru óveðursský á lofti. Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins munum við skila 500 milljóna afgangi af rúmlega 32 milljarða veltu. Það sýnir bara að sveitarfélögin eru aðþrengd. Við erum með fáa og takmarkaða tekjustofna. Sveitarfélögin þyrftu líka að fá hlutdeild í einhverjum af hinum fjölmörgu tekjustofnum sem ríkið hefur yfir að ráða.“
Þá bendir hann á að Kópavogur sé ekki með útsvarið í botni og að fasteignaskattar hafi verið lækkaðir sjöunda árið í röð.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, tekur undir með Ármanni. „Það er alls staðar mjög lítið svigrúm. Sveitarfélögum er bara mjög þröngur stakkur sniðinn.“
Kæmi til einhverra aðgerða í tengslum við kjarasamninga yrði það að vera hluti af sameiginlegu útspili sveitarfélaganna. „Við yrðum þá bara að endurskoða okkar verkefni en við erum að einblína á lögbundin verkefni. Útsvarið væri ekki í hámarki nema við þyrftum á því að halda.“
Fréttablaðið reyndi að fá viðbrögð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.