Skoðun

Pálmatré

Óttar Guðmundsson skrifar
Ég er eins og jólatré, ég er í hreppsnefndinni,“ orti hégómlegur og fremur vitgrannur hreppsnefndarmaður endur fyrir löngu. Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík kynnti stórkostlegan listgjörning í vikunni. Þau ætla að planta lifandi pálmatrjám inn í þar til gerða gróðurhúshólka og setja upp í nýju úthverfi borgarinnar. Þetta er afskaplega snjöll hugmynd enda eru pálmatré rótgróin í sögu kristni og þjóðar. Þegar Kristur reið inn í Jerúsalem stráðu aðdáendur hans pálmaviðarblöðum á götuna. Pálmi í Hagkaup gjörbreytti verslunarháttum landsmanna og flutti inn hina vinsælu Hagkaupssloppa. Í huga fólks er pálminn einkenni sigra og velgengni sbr. orðtakið að standa með pálmann í höndunum.

Ekki er að efa að pálmatré í gróðurhúsahólkum munu gjörbreyta ásýnd hverfisins og Íslands. Túristum mundi fjölga enda býst enginn við þessari trjátegund á breiddargráðu landsins. Ýmis ljón eru þó í veginum. Áhugamenn um velferð trjáa segja að pálmatrjám leiðist einum síns liðs í gróðurhúsi. Þau geta drepist úr leiðindum og eintrjáleika í fyrstu vetrarhörkum. Slík meðferð er kölluð trjáníð. Aðrir segja að upphitaðir glerhólkar utan um trén verði dýrir og erfiðir í framleiðslu.

En þjóðin vill fá sín pálmatré svo að kannski mætti huga að öðrum lausnum. Best væri að festa kaup á plastpálmatrjám sem hægt væri að gróðursetja í hverfinu nýja án gróðurhúsa. Sú lausn væri mun ódýrari. Hægt væri að planta heilum skógi úr plasti með tilheyrandi rólum og sólhlífum. Þarna væri hægt að stunda strandblak í svartasta skammdeginu í flóðljósum. Dagur borgarstjóri gæti þá með góðri samvisku sungið: „Ég er eins og pálmatré, ég er borgarstjórinn.“




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×