Skoðun

Framsæknar konur

Þórunn Egilsdóttir skrifar
Þau sögulegu tíðindi áttu sér stað í liðinni viku að í fyrsta skipti skipa konur meirihluta í ríkisstjórn fyrir Framsóknarflokkinn. Inn í ríkisstjórn kom Lilja Alfreðsdóttir, hæfileikarík, vel menntuð og reynslumikil ung kona. Hún er sjöundi kvenkynsráðherrann úr röðum flokksins.

Þetta eru einkar ánægjuleg tíðindi því í gegnum árin hafa Framsóknarkonur barist einarðlega fyrir jafnréttismálum. Innan Framsóknarflokksins hefur Landssamband Framsóknarkvenna verið ötult í að hvetja konur til að stíga fram og láta til sín taka, hvort heldur sem er á vettvangi stjórnmálanna eða í atvinnulífinu. Jafnréttisáætlun flokksins kveður á um hvernig Framsóknarflokkurinn vinnur að jafnrétti og virðingu allra í flokksstarfinu,  jafnt í innra sem ytra starfi.

Markmiðið er að ná jafnri þátttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni og aldri í störfum á vegum flokksins, ákvarðanatöku og skiptingu ábyrgðar.

Um þessi markmið hefur verið mikil samstaða og hafa karlar og konur unnið saman að þeim.

Framsóknarflokkurinn hefur vissulega uppskorið í þessum efnum en við megum ekki gleyma því að til að ná árangri á þessu sviði sem öðrum eru samvinna og samtal mikilvægir þættir. Þá megum við ekki gleyma sögunni og því að sterkir einstaklingar hafa í gegnum tíðina ýtt við okkur hinum. Í því sambandi vil ég minnast framgöngu Rannveigar Þorsteinsdóttur sem kosin var á þing árið 1946, fyrst kvenna fyrir Framsóknarflokkinn.

Baráttumál hennar voru öðru fremur réttarstaða kvenna, skattamál og húsnæðismál. Hún var óþreytandi að hvetja konur til starfa í félags- og þjóðmálum.  Sem eintaklingur þótti hún kappsöm og skelegg og sannarlega var hún langt á undan sinni samtíð. Einstaklingum eins og Rannveigu getum við þakkað margt og nýtt verk þeirra okkur til áframhaldandi hvatningar.

Við Framsóknarmenn erum svo lánsöm að dreifing aldurs í okkar hópi er nokkuð breið og bakgrunnur okkar fjölbreyttur. Nefna má að í síðustu Alþingiskosningum gerðust þau sögulegu tíðindi að í þingflokki okkar eru bæði yngsti og elsti þingmaðurinn og ekki nóg með það heldur eru þeir báðir konur. Jóhanna María Sigmundsdóttir er yngsta konan sem  nokkru sinni efur verið kosin á þing. Framganga hennar er sannarlega ungum konum hvatning til að láta til sín taka á sviði stjórnmála. Þá er elsta konan Sigrún Magnúsdóttir sannarlega reynslubolti sem hefur víðtæka þekkingu og kunnáttu sem nýtist vel í ráðherrastól.

Við Íslendingar stöndum framarlega í jafnréttismálum en þrátt fyrir það eru enn verkefni fyrir höndum og mikilvægt að við ekki einungis viðhöldum árangrinum heldur stígum sífellt lengra og nær því að gera stöðu kynjanna jafna.

Sóknarfærin eru mörg og mun ríkisstjórn Framsóknarfokks og Sjálfstæðisflokks halda áfram að skapa verðmæti með kraftmiklum einstaklingum, körlum og konum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×