Íslenski boltinn

KR eina liðið með fleiri stig en Skagamenn í síðustu fimm umferðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson.
Garðar Gunnlaugsson. Vísir/Ernir
Fjórtánda umferð Pepsi-deildar karla fer öll fram í kvöld þegar allir sex leikir hennar eru á dagskrá. Skagamenn munu þar reyna að byggja ofan á gott gengi liðsins að undanförnu.

Skagamenn hafa aðeins tapað einu sinni í síðustu sjö deildarleikjum sínum og ennfremur unnið 3 af síðustu 5 leikjum sínum í Pepsi-deildinni.

Þegar árangur liðanna tólf í síðustu fimm umferðunum er skoðaður betur kemur í ljós að það eru aðeins KR-ingar sem hafa náð í fleiri stig í síðustu fimm leikjum sínum en Skagamenn.

KR-liðið vann fjóra leiki í röð áður en liðið gert markalaust jafntefli við Blika í síðustu umferð og KR-ingar hafa aðeins fengið á sig eitt mark í síðustu fimm leikjum sínum.

Skagamenn eru líka það lið sem hefur skorað flest mörk í síðustu fimm umferðum Pepsi-deildarinnar eða tólf talsins. Skagamenn hafa skorað tveimur mörkum fleiri en Víkingar sem búa þar að 7-1 sigri á Keflavík á þessum tíma.

Skagamenn hafa skorað tvö mörk eða fleiri í fjórum af þessum fimm leikjum en liðið vann í þessum umferðum mikilvæga heimasigra á Keflavík (4-2), ÍBV (3-1) og Leikni (2-1).

Markaskorunin hefur líka dreifst vel á menn. Arsenij Buinickij er reyndar með þrjú mörk í þessum fimm leikjum en hin níu mörkin hafa skipts jafnt á milli átta manna auk eins sjálfsmarks.

Skagaliðið hefur reyndar ekki haldið marki sínu hreinu í þessum fimm umferðum en það hefur ekki komið sök í góðri stigastöfnum liðsins.



Flest stig í síðustu fimm umferðum Pepsi-deildarinnar:

1. KR 13

2. ÍA 10

3. Valur 10

4. Víkingur 9

5. FH 8

6. Fylkir 8

Fæst stig í síðustu fimm umferðum Pepsi-deildarinnar:

12. Keflavík 1

11. Leiknir 2

10. Fjölnir 3

9. Breiðablik 5

8. ÍBV 7

7. Stjarnan 7

Flest mörk skoruð í síðustu fimm umferðum Pepsi-deildarinnar:

1. ÍA 12

2. Víkingur 10

3. FH 9

4. KR 8

4. Valur 8

4. ÍBV 8

Fæst mörk fengin á sig í síðustu fimm umferðum Pepsi-deildarinnar:

1. KR 1

2. Breiðablik 4

3. Valur 5

3. Víkingur 5

3. Stjarnan 5

6. Leiknir 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×