Íslenski boltinn

Guðjón kominn með leikheimild | Getur spilað gegn ÍA á morgun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón fagnar eina marki sínu fyrir Nordsjælland.
Guðjón fagnar eina marki sínu fyrir Nordsjælland. vísir/getty
Guðjón Baldvinsson er búinn að fá leikheimild með Stjörnunni og getur því leikið með Garðabæjarliðinu gegn ÍA í fyrsta leik 12. umferðar Pepsi-deildar karla á morgun.

Guðjón gekk í raðir uppeldisfélagsins frá danska liðinu Nordsjælland í dag og gerði þriggja ára samning við Stjörnuna.

Guðjón lék síðast með Stjörnunni sumarið 2007 en eftir tímabilið fór hann til KR þar sem hann spilaði samtals þrjú tímabil.

Guðjón hefur aldrei leikið með Stjörnunni í efstu deild en hann gerði 36 mörk í 66 leikjum með liðinu í 1. og 2. deild á árunum 2003-07.

Í samtali við Vísi fyrr í dag sagðist Guðjón óviss hvort hann myndi spila leikinn gegn ÍA en hann flýgur til Íslands í kvöld.

„Við bara sjáum til hvernig þetta fer allt saman. Hvort það sé sniðugt að fljúga heim seint í kvöld og spila leik á morgun án þess að æfa með liðinu veit ég ekki. Ég tek bara ákvörðun Rúnars Páls.“

Stjörnumönnum veitir ekki af liðsstyrk en Íslandsmeistararnir eru í 6. sæti Pepsi-deildarinnar með aðeins 15 stig eftir 11 umferðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×