Handbolti

Að­eins einn lög­legur dúkur svo Valur og FH byrja saman í Krikanum

Sindri Sverrisson skrifar
FH og Valur hefja Evrópudeildina bæði í Kaplakrika. Aron Pálmarsson mætir þar félögum sínum úr íslenska landsliðinu.
FH og Valur hefja Evrópudeildina bæði í Kaplakrika. Aron Pálmarsson mætir þar félögum sínum úr íslenska landsliðinu. vísir/Diego

Það verður sannkölluð handboltaveisla í Kaplakrika 15. október þegar Íslendingaliðin Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, og Porto mæta þangað og spila við FH og Val í Evrópudeild karla.

Aðeins einn dúkur er til á Íslandi sem stenst þær kröfur sem EHF gerir vegna leikja í Evrópudeildinni, næststerkustu Evrópukeppninni í handbolta. Þess vegna sóttust FH-ingar og Valsmenn eftir því að leikdagar heimaleikja þeirra myndu ekki skarast.

Það gerist engu að síður í fyrsta heimaleik þeirra og ljóst að ekki er hægt að hafa dúkinn á tveimur stöðum á sama tíma. Þess vegna hafa Valsmenn samþykkt að dúkurinn verði lagður í Kaplakrika, á heimavelli FH, og þeir spila þar gegn Porto, með landsliðsmanninn Þorstein Leó Gunnarsson innanborðs, sinn fyrsta heimaleik í keppninni.

FH-ingar mæta sama dag lærisveinum Guðjóns Vals í Gummersbach, en með þýska liðinu spila Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson sem þar með mæta fyrirliða sínum úr landsliðinu, Aroni Pálmarssyni.

Búast má við mikilli hátíð í Kaplakrika en leikirnir tveir fara fram á 95 ára afmælisdegi FH-inga.

Dúkurinn flakkar á milli

Eftir þessa fyrstu heimaleiki munu Valsmenn, sem unnu EHF-bikarinn (þriðju bestu Evrópukeppnina) á síðustu leiktíð, mæta Melsungen (með Elvar Örn Jónsson og Arnar Frey Arnarsson innanborðs) 29. október og Vardar 19. nóvember á heimavelli sínum á Hlíðarenda. 

FH leikur hins vegar alla sína heimaleiki í Kaplakrika en eftir leikinn við Gummersbach tekur liðið á móti Sävehof frá Svíþjóð 22. október og Fenix Toulouse frá Frakklandi 26. nóvember. 

Handboltadúkurinn mun því flakka á milli Kaplakrika og Hlíðarenda þar til að riðlakeppninni lýkur. Fleiri leikir gætu svo mögulega beðið en tvö lið komast áfram úr hverjum riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×