Sport

Ísland tryggði sæti sitt í 2. deild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland verður áfram í A-riðli 2. deildar karla í HM í íshokkí en það varð ljóst eftir öruggan 6-1 sigur liðsins á Ástralíu í kvöld, 6-1.

Ísland vann fyrsta leik sinn í riðlinum, gegn Belgíu, en tapaði svo fyrir Serbíu og Spáni. Leikurinn gegn Ástralíu var því mikilvægur en eftir tapið í kvöld er ljóst að Ástralía fellur í B-riðilinn.

Strákarnir voru 2-1 yfir eftir fyrsta leikhluta og bætti við tveimur mörkum í öðrum leikhluta. Þeir gerðu svo endanlega út um leikinn með tveimur mörkum í lokaleikhlutanum.

Emil Alengård skoraði tvö mörk fyrir Ísland og þeir Egill Þormóðsson, Robin Hedström, Björn Sigurðarson, Ingþór Árnason eitt hver.

Ísland mætir Rúmeníu í lokaumferð keppninnar á sunnudag. Rúmenar eru í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga og hafa þegar tryggt sér sigur í riðlinum.

Spánn og Ísland eru með sex stig í 2.-3. sæti og Belgía og Serbía með fimm stig hvort. Ástralía rekur svo lestina með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×