Skoðun

Uppruni, umhyggja og upplifun

Guðný Helga Björnsdóttir skrifar
Ísland býr yfir gnægð náttúruauðlinda, vistvænni orku, hreinu vatni í miklu magni, gjöfulum fiskimiðum og nægu landrými sem skila okkur ótal tækifærum, á meðan við gætum þess að nýta þau með sjálfbærum hætti. Síðast en ekki síst búum við yfir miklum mannauði sem er lykillinn að því að virðiskeðjan sé ábatasöm fyrir allt þjóðarbúið. Uppbygging verður nefnilega ekki nema að til sé nægilega mikið af fólki sem hefur þekkingu, áhuga og möguleika á að nýta þá kosti sem bjóðast.

Sóknarfærin mörg

Við höfum víða ónýtta framleiðslugetu og eigum sóknarfæri til að auka útflutning og fullvinnslu ýmiss konar. Helstu sóknarfærin í aukinni verðmætasköpun hvað landbúnaðinn varðar eru mörg. Það er verkefni bænda og afkoma þeirra byggist á að framleiða búvörur og að veita margs konar þjónustu. Þekking, reynsla, sérhæfing og fagmennska eru búmannshættir 21. aldarinnar. Framþróun menntunar í landbúnaði er bændum því grunnur að því að byggja atvinnugreinina upp til framtíðar. Nýjar búgreinar og fjölbreyttar áskoranir krefjast aukinnar þekkingar, rannsókna og þróunar. Orkuvinnsla á bújörðum, stóraukin kornrækt, heimaframleiðsla fóðurs, bætt nýting framleiðsluþátta og stöðugar tækniframfarir eru meðal viðfangsefna morgundagsins.

Fjölbreytni og nýsköpun

Íslenskir bændur sjá landsmönnum fyrir góðum og hollum mat allt árið um kring. Mikil tækifæri leynast innan landbúnaðarins og hlutverk hans mun vaxa á komandi árum. Við eigum mikið land, hreint vatn, duglega bændur og öflug fyrirtæki. Það þarf að leggja áherslu á að fjölga störfum í landbúnaði og að virðisauki framleiðslunnar komi sveitunum til góða. Íslenskir bændur vilja stuðla að fjölbreytni og nýsköpun í landbúnaði og nýta auðlindir landsins með sjálfbærni að leiðarljósi. Þannig á landbúnaðurinn framtíðina fyrir sér þar sem mannauðurinn fer fremstur í flokki við að framleiða hágæðamatvæli fyrir neytendur og skapa um leið mikið virði fyrir þjóðarbúið.

Velkomin á matarhátíð í Hörpunni

Íslenskir bændur munu áfram leggja sig alla fram um að framleiða úrvals matvæli á eins hagstæðu verði og mögulegt er. Það eitt skiptir meginmáli til framtíðar litið. Næstkomandi helgi munu bændur landsins skunda í höfuðborgina og taka þátt í veglegri matarhátíð í Hörpunni. Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands verður formlega sett við hátíðlega athöfn og kokkakeppni matarhátíðarinnar Food & Fun fer fram í kjölfarið. Á sama tíma verður iðandi mannlíf á matarmarkaði Búrsins, þar sem ýmsir smáframleiðendur bjóða fram sínar vörur. Þar munu allir gestir finna eitthvað við sitt hæfi undir einkunnarorðunum: Uppruni, umhyggja og upplifun!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×