Innlent

Brunaði af stað frá ölvunarpósti en var hand­tekinn við Hamra­borg

Agnar Már Másson skrifar
Maðurinn var handtekinn við Hamraborg.
Maðurinn var handtekinn við Hamraborg. Vísir/Vilhelm

Ökumaður var í gær handtekinn við Hamraborg í Kópavogi eftir að hafa endað uppi á vegkanti á flótta sínum frá lögreglu, þar sem hann hafði reynt að komast undan því að blása í áfengismæli. Hann er grunaður um að aka undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að tveir hafi verið í bílnum.

Ökumaðurinn hafi tekið á rás þegar þeir komu að ölvunarpósti við Bústaðaveg, þar sem lögreglan lét ökumenn blása í áfengismæli.

Lögreglan veitti þá bílnum eftirför en ökumaðurinn endaði á því að aka upp á kant með þeim afleiðingum að bifreiðin skemmdist.

Jóhann segir að mennirnir hafi verið handteknir við Salinn í Kópavogi, nánar tiltekið við Hamraborg, en fréttastofu bárust ábendingar um að fjölmennt lið lögreglumanna hefði komið að handtöku þar í nótt.

Ökumaðurinn er grunaður um að aka undir áhrifum og var látinn dúsa í fangageymslu lögreglu en Jóhann segir að honum verði sleppt að lokinni blóðprufu.

Veistu meira um málið eða ertu með fréttnæma ábendingu? Ekki hika við að senda okkur fréttaskot, nafnlaust eða undir nafni, með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×