Körfubolti

Almar var kominn alla leið til Banda­ríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Almar Orri Atlason hefur verið lykilmaður í íslensku unglingalandsliðunum.
Almar Orri Atlason hefur verið lykilmaður í íslensku unglingalandsliðunum. FIBA.Basketball

Almar Orri Atlason verður með íslenska karlalandsliðinu í körfubolta á Evrópumótinu í Póllandi en það þýddi jafnframt langt ferðalag hjá stráknum. Hann var farinn út í nám í Bandaríkjunum þegar neyðarkallið barst frá Íslandi.

Almar Orri var ekki valinn í EM-hópinn sem var tilkynntur í gær en hlutirnir geta verið fljótir að breytast í boltanum. Meiðsli Hauks Helga Pálssonar þýða að Almar var kallaður inn í hópinn aðeins einum degi síðar. Hann er því á leiðinni á Eurobasket eftir allt saman.

Almar Orri er uppalinn í KR en spilar með Bradley skólanum í bandaríska háskólaboltanum. Eftir að það kom í ljós að hann yrði ekki í íslenska EM-hópnum þá var hann farinn út til Bandaríkjanna þar sem skólanámið kallaði.

Það þurfti því að hafa snögg handtök og redda stráknum fari aftur til Íslands. Íslenska liðið er síðan á leiðinni til Litáen þar sem liðið spilar æfingarleik við heimamenn á föstudagskvöldið. 

Almar er því að fljúga heim til Íslands í kvöld og nótt. Flýgur frá Chicago og lendir í fyrramálið. Hann flýgur síðan með íslenska liðoinu til Litháen eftir hádegi. Strákurinn verður því á ferðinni í næstum því heilan sólarhring.

Almar Orri, sem er einn efnilegasti leikmaður Íslands, hafði spilað undirbúningsleikina hjá íslenska liðinu en tókst ekki að vinna sér sæti í liðinu. Hann stóð sig þó það vel að hann var fyrsti varamaður og það þýddi sæti í liðinu þegar Haukur meiddi sig.

Almar er yngsti leikmaður íslenska liðsins og eins og Martin Hermannsson árið 2015 og Tryggvi Snær Hlinason árið 2017 þá hafa efnilegir leikmenn komist í fyrri EM-hópa íslenska körfuboltalandsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×