Körfubolti

Nánast allar treyjur uppseldar fyrir EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bláa landsliðstreyjan er bara til í 3XL á heimasíðu Errea.
Bláa landsliðstreyjan er bara til í 3XL á heimasíðu Errea. vísir

Nú þegar rétt rúm vika er í að Ísland hefji leik á EM í körfubolta eru nánast allar landsliðstreyjur orðnar uppseldar á heimasíðu Errea á Íslandi. Markaðsstjóri fyrirtækisins segir eftirspurnina í ár hafa verið mun meiri en áður þegar Ísland hefur farið á EM.

Á heimasíðu Errea má sjá að bláar landsliðstreyjur eru einungis til í stærð 3XL, hvítu treyjurnar eru til í 2XL, 3XL og 4XL en allar aðrar stærðir eru uppseldar.

Bergþór Þorvaldsson, markaðsstjóri fyrirtækisins, segir nánast allt uppselt í búðinni.

„Eins og staðan er, þá eru bara örfáar treyjur eftir í búðinni hjá mér. Þegar það er uppselt þá er nokkuð ljóst að búningurinn sé bara orðinn uppseldur fyrir EM“ segir Bergþór.

Bergþór bendir á að bolir og peysur og annar varningur tengdur landsliðinu sé enn til sölu, en eigi væntanlega eftir að seljast upp sömuleiðis.

„Ekki spurning, eftirspurnin er það mikil. Ég mun á einhverjum tímapunkti ekki eiga staka bláa vöru í húsinu. Þegar það er svona mikið fjör þá rýkur þetta bara út.“

Bergþór segir þetta þó jákvætt vandamál, frekar en neikvætt, að treyjurnar séu uppseldar á þessum tímapunkti.

„Það er bara frábært, hvað það hefur verið vel tekið í þetta. Áfram Ísland og áfram körfubolti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×