Erlent

Obama blæs Demó­krötum byr í brjóst

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Obama hefur látið fremur lítið fyrir sér fara, þrátt fyrir stórkostlegar pólitískar æfingar Donald Trump.
Obama hefur látið fremur lítið fyrir sér fara, þrátt fyrir stórkostlegar pólitískar æfingar Donald Trump. Getty/Meg Oliphant

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur stigið fram til að blása Demókrötum í Texas í brjóst en hann hefur hælt þingmönnum ríkisþingsins fyrir að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu um breytta kjördæmaskipan.

Eins og Vísir hefur áður greint frá, „flúðu“ tugir ríkisþingmanna Demókrataflokksins frá Texas til Illinois til að koma í veg fyrir að Repúblikanar gætu knúið fram atkvæðagreiðslu um breytinguna, sem mun líklega tryggja Repúblikanaflokknum fimm þingsæti til viðbótar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

„Við megum ekki bara standa aðgerðalaus og láta hjá líða kerfisbundnar árásir á lýðræðið. Þannig, vegna hugrekkis ykkar, þá höfum við séð Kaliforníu bregðast við og önnur ríki athuga hvað þau geta gert til að jafna út þetta kjördæmasvindl,“ sagði Obama á Zoom-fundi.

Obama hefur látið fremur lítið fyrir sér fara frá því að hann lét af embætti og ákvörðun hans um að tjá sig nú þykir þannig til marks um alvarleika málsins.

Demókratarnir í Texas hyggjast snúa aftur um helgina og gera má ráð fyrir að kjördæmabreytingarnar verði knúðar í gegn á næstunni. Stjórnvöld í Kaliforníu og víðar hyggjast hins vegar freista þess að grípa til mótvægisaðgerða til að jafna leikinn.

Gera má ráð fyrir að málið muni rata fyrir dómstóla en Obama sagði það alltént ekki yrðu leyst á næstunni. Bandaríska þjóðin þyrfti að átta sig á stöðunni og því að hún gæti ekki gengið að frelsinu og lýðræðinu sem sjálfsögðum hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×