Erlent

Drápu tvo blaða­menn og tvo tökumenn vís­vitandi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lík al-Sharif var illa útleikið eftir sprenginguna.
Lík al-Sharif var illa útleikið eftir sprenginguna. Getty

Tveir fréttaritarar Al-Jazeera og þrír myndatökumenn voru drepnir í loftárás Ísraelshers í dag. Þeir dvöldu í tjaldi ætluðu fréttamönnum við Al-Shifa-sjúkrahúsið í Gasaborg. Ísraelsher segir annan blaðamannanna hafa verið Hamasliði.

Anas al-Sharif var á meðal þeirra sem drepnir voru í loftárásum á tjaldbúðir blaðamanna í dag. Auk hans var Mohammed Qreiqeh, annar fréttaritari Al Jazeera, drepinn og tökumennirnir Ibrahim Zaher, Mohammed Noufal og Moamen Aliwa.

Miðillinn hefur eftir forstöðumanni sjúkrahússins að sjö manns hafi látist í árásinni en Ísraelsmenn hafa áður drepið nokkurn fjölda fréttamanna á vegum Al Jazeera og annarra miðla. Frá árás Hamasliða 7. október 2023 hafa Ísraelsmenn drepið 186 blaðamenn og fangelsað aðra 90. Samkvæmt Hamasliðum er það vanmat.

Tjaldbúðir fréttamannanna voru fyrir utan aðalinngang sjúkrahússins. Al-Sharif var 28 ára og flutti reglulega fréttir af átökunum á norðanverðu Gasasvæðinu. Talsmenn Ísraelsher staðhæfa þó að al-Sharif hafi farið fyrir hópi vígamanna og aðstoðað við eldflaugaárásir á ísraelska borgara og hermenn. Herinn segist jafnframt búa yfir ótvíræðum sönnunum um aðkomu hans að árásum Hamas.

Skömmu áður en hann lést birti hann myndbandið hér fyrir ofan á samfélagsmiðlum. Hann segir að ísraelskum sprengjum hafi rignt yfir Gasaborg í fleiri samfleytta klukkutíma.

Í yfirlýsingu gengst ísraelski herinn við því að hafa viljandi gert árás á tjaldbúðir blaðamanna í því skyni að drepa Anas al-Sharif. Þar segir að al-Sharif hafi verið hryðjuverkamaður og útsendari Hamsa í gervi fréttamanns. Ísraelsher kvaðst jafnframt hafa gert ráðstafanir til að valda ekki almennum borgurum óþarfa tjóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×