Innlent

Vínsalar látnir klára vakt eftir and­lát í versluninni

Agnar Már Másson skrifar
Starfsfólki var boðin áfallahjálp daginn eftir, segja stjórnendur. Fjöldi fólks fylgdist með hjartahnoði sjúkraflutningamanna.
Starfsfólki var boðin áfallahjálp daginn eftir, segja stjórnendur. Fjöldi fólks fylgdist með hjartahnoði sjúkraflutningamanna. Vísir/Agnar

Starfsfólki Vínbúðarinnar í Austurstræti var gert að klára vinnudaginn sinn eftir að maður lést í versluninni í síðustu viku. Stjórnendur ÁTVR harma að svo illa hafi verið brugðist við en segja að starfsfólki hafi verið boðin áfallahjálp næsta dag.

Sigrún Ósk Sig­urðardótt­ir, aðstoðarfram­kvæmda­stjóri ÁTVR, staðfestir þetta við fréttastofu.

Mbl.is greindi fyrst frá og segir að samkvæmt sínum upplýsingum hafi vaktstjóri hringt í skrif­stofu ÁTVR og þaðan fengið fyr­ir­mæli um að opna aft­ur versl­un­ina eft­ir að hinn látni hafi verið flutt­ur af vett­vangi.

Lögregla sinnti útkalli í Vínbúðinni í Austurstræti í Reykjavík mánudaginn 14. júlí þar sem hún veitti manni hjartahnoð eftir að hann hafði að sögn sjónarvotts dottið í versluninni. 

Margir voru viðstaddir í miðbænum þennan dag og fylgdist fjöldi með aðgerð lögreglunnar, sem hafði lokað fyrir götuna meðan aðgerðin stóð yfir. Að lokum var hinn slasaði fluttur með sjúkrabíl. 

Frá lögregluaðgerðum á vettvangi mánudaginn 17. júlí. Margir fylgdust með í fjarska og sást í viðbragðsaðila gefa manninum hjartahnoð. Vísir/Agnar

„Þetta voru mistök og okkur þykir þetta mjög leitt,“ seg­ir Sigrún í samtali við fréttastofu. 

Í skriflegu svari segir hún enn fremur að atvik af þessum alvarleika séu sem betur fer mjög sjaldgæf. 

„Því miður gerðu stjórnendur mistök í kjölfar þessa atviks og rétt hefði verið að meta aðstæður betur. Það eru til verkferlar sem snúa að ýmsum öryggisfrávikum en í ljósi alvaleika atviksins hafa verkferlar verið yfirfarnir með það að leiðarljósi að gera betur,“ segir í skriflegu svari Sigrúnar.

Hún segir að starfsfólki hafi verið boðin áfallahjálp daginn eftir en stjórnendum þyki miður að hafa ekki brugðist betur við í þessum erfiðu aðstæðum og muni leggja sig fram um að slíkt endurtaki sig ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×