Innlent

Gasútstreymi minnkandi en gosmóðu enn spáð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Eldgos hófst við Sundhnúksgígaröðina þann 16. júlí. 
Eldgos hófst við Sundhnúksgígaröðina þann 16. júlí.  Björn Steinbekk

Gosvirkni í eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina hefur hægt á sér síðan í gærmorgun. Enn gýs úr einum gíg og rennur hraunið áfram til austurs og suðausturs. Hraunið dreifir sér á breiðunni innan við einn kílómetra frá gígnum en lítil hreyfing er á ystu jöðrum þess.

Frá þessu er greint í stöðuuppfærslu á eldgosinu á vef Veðurstofunnar. Þar segir að gosvirkni í eldgosinu við Sundhnúksgígaröðina hafi hægt á sér síðan í gærmorgun. Enn gjósi úr einum gíg og hraunið renni áfram til austurs og suðausturs. Hraunið dreifi sér á breiðunni innan við einn kílómetra frá gígnum en lítil hreyfing sé á ystu jöðrum þess.

Samkvæmt nýjustu mælingum frá Eflu sem voru gerðar í gær sé heildarrúmmál nýja hraunsins á Sundhnúkssvæðinu nú metið 26,8 milljónir rúmmetra og þekur um 3,3 ferkílómetra. Ný gögn sýni að rúmmál hraunsins hafi aukistum 5,1 milljón rúmmetra á fimm dögum, frá 18. til 23. júlí. Það jafngildir meðalhraða hraunrennslis upp á um 12 rúmmetra á sekúndu.

Gosmóða á Vestfjörðum

Mælingar á brennisteinsdíoxíði (SO₂) í morgun sýni útstreymi á bilinu 25 - 44 kílógrömm á sekúndu, sem er veruleg lækkun frá deginum áður.

Í dag hafi verið suðaustanátt og gasmengun borist til norðvesturs yfir Njarðvík og Keflavík en snýst svo í sunnanátt með deginum og mengun gæti þá borist yfir Voga, höfuðborgarsvæðið, Akranes og Borgarnes.

Þá segir að G-gosmóða (SO₄) hafi mælst víða í morgun, meðal annars á Ísafirði og Ströndum. Með vaxandi suðaustanátt ætti að draga úr gosmóðu víða yfir daginn, en hægviðri sé spáð á föstudag og gæti hún þá gert vart við sig á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×