Skoðun

Sam­eigin­leg yfir­lýsing 28 ríkja um mál­efni Palestínu, hvers virði er hún?

Einar Ólafsson skrifar

21. júlí síðastliðinn kom út yfirlýsing um málefni Palestínu undirrituð af utanríkisráðherrum 28 ríkja, þar á meðal Íslands, auk framkvæmdastjóra Evrópusambandsins í málefnum jafnréttis, viðbragðsgetu og neyðarþjónustu.

Af þessum ríkjum eru 24 í Evrópu, þar af 20 í Evrópusambandinu. Utan Evrópu eru Ástralía, Kanada, Japan og Nýja-Sjáland. Meðal ríkja utan ESB er Bretland. 21 af þessum ríkjum eru í NATO.

Þessi yfirlýsing sætir tíðindum þar sem um er að ræða ríki sem mörg hver hafa haft mikil og vinsamleg samskipti við Ísrael og eru í nánum samskiptum við helsta stuðningsríki Ísraels, Bandaríkin.

Það þarf ekki að koma á óvart en er þó athyglisvert að Þýskaland er ekki meðal þessara ríkja.

Yfirlýsingin er kannski góð svo langt sem hún nær, en spurningin hversu langt hún nær.

Grundvallarskilaboðin eru: Stríðinu á Gaza verður að ljúka án tafar.

Sagt er að hörmungar íbúa á Gaza hafi náð nýjum hæðum. Fordæmt er hvernig staðið er að veitingu mannúðaraðstoðar á Gaza og dráp á óbreyttum borgurum, þar með talið börnum, sem eru að leita eftir aðgengi að grunnþörfum eins og vatni og mat. Óviðunandi sé að Ísrael neiti óbreyttum borgurum um aðgengi að mannúðaraðstoð. Ísrael verði að uppfylla skyldur sem alþjóðleg mannúðarlög fela þeim á hendur. Og allir aðilar (all parties) eru hvattir til að vernda almenna borgara og fara eftir alþjóðlegum mannúðarlögum.

Í yfirlýsingunni er tillögum sem ísraelskir ráðamenn hafa orðað um flutning Palestínumanna á Gaza í svokallaða „mannúðarborg“ lýst sem fullkomlega óviðunandi. Varanlegir nauðungarflutningar fólks séu brot á alþjóðamannúðarlögum. Þá lýsa utanríkisráðherrarnir sig algerlega andsnúna öllum lýðfræðilegum breytingum eða breytingum á yfirráðum á landsvæði á Vesturbakkanum. Áform ísraelskra stjórnvalda í þeim efnum og áframhaldandi landtaka á Vesturbakkanum og Austur Jerúsalem sé brot á alþjóðalögum og grafi undan tveggja ríkja lausninni svonefndu.

Og fordæmt er að Hamas haldi enn gíslum og þess krafist að þeim sé sleppt tafarlaust og án skilyrða.

Yfirlýsingin er kannski góð svo langt sem hún nær, en spurningin hversu langt hún nær.

Auðvitað yrði stríðinu á Gasa að ljúka sem fyrst ef þar væri stríð. En hafi einhvern tíma verið hægt að tala um stríð á Gasa, þá er því löngu lokið og einhliða þjóðarmorð hefur tekið við. Yfirlýsing þar sem þjóðarmorð er kallað stríð nær ekki langt.

Allir aðilar („báðir aðilar“ er sennilega réttari þýðing) eru hvattir til að vernda almenna borgara og fara eftir alþjóðlegum mannúðarlögum. Formlega má kannski segja að þetta orðalag standist, sem sagt að Hamas sé „aðili“, en orðalagið gerir óneitanlega heldur lítið úr óheyrilegum brotum Ísraels á alþjóðalögum, þjóðarmorði.

En aðalgallinn á þessari yfirlýsingu er að hún er eiginlega ekkert nema mórölsk yfirlýsing – nú höfum við sagt þetta. Og höfum þar með þvegið hendur okkar.

Þessi yfirlýsing fer eflaust í taugarnar á ráðamönnum í Ísrael, en þeir hrista það ef laust af sér. Það er hægt að dæla út svona yfirlýsingum, þær færa okkur ef til vill hænufet áfram, en dauðinn á Gaza fer bara margfalt hraðar.

Yfirgnæfandi hluti utanríkisviðskipta og ýmis konar samskipta Ísraels er sennilega við þau ríki sem eiga aðild að þessari yfirlýsingu. Einhver, sem á ensku hefur titilinn „The EU Commissioner for Equality, Preparedness and Crisis Management“, skrifar undir yfirlýsingun. Samkvæmt nýlegum tölum eru um 28% utanríkisviðskipta Ísraels við ESB.

Svokölluð vestræn ríki brugðust skjótt við innrás Rússa í Úkraínu með ýmiskonar þvingunaraðgerðum. Hér er hvergi ýjað að slíku. Hér er hvergi minnst á að Bandaríkin verði að láta af eindregnum stuðningi sínum við Ísrael, hér er hvergi minnst á að ESB þurfi að láta meira til sín taka, enda getur ESB tekið þátt í þessum sameiginlegum handaþvotti með því að láta einn af kommissörum sínum undirrita yfirlýsinguna.

Yfirlýsingin er kannski góð svo langt sem hún nær, en það er bara þetta hænufet.

En vonandi boðar hún meira.

Höfundur er rithöfundur og fyrrum bókavörður.




Skoðun

Sjá meira


×