Fótbolti

Andri Fannar á leið frá Bologna enn á ný

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliðinn Andri Fannar Baldursson í einum af 22 leikjum sínum fyrir U-21 árs landslið Íslands.
Fyrirliðinn Andri Fannar Baldursson í einum af 22 leikjum sínum fyrir U-21 árs landslið Íslands. Vísir/Anton Brink

Það virðist næsta öruggt að miðjumaðurinn Andri Fannar Baldursson sé á förum frá efstu deildarliði Bologna á Ítalíu.

Þýski miðillinn Bild greinir frá því að Nürn­berg sem leikur í B-deildinni þar í landi hafi áhuga á hinum 23 ára gamla miðjumanni. Íþróttastjóri félagsins, Joti Chatzia­l­ex­i­ou, gekk svo langt að staðfesta við Bild að Andri Fannar væri á óskalista félagsins.

Undanfarið hefur Andri Fannar verið orðaður við Frosinone sem leikur í B-deildinni á Ítalíu. Emil Hallfreðsson lék á sínum tíma með liðinu.

Andri Fannar hefur verið á mála hjá Bologna frá árinu 2020 og framlengdi nýverið samning sinn þar um eitt ár. Það virðist þó ekki sem félagið ætli sér að nota hann á komandi leiktíð.

Alls hefur Andri Fannar leikið 15 leiki í Serie A, efstu deild Ítalíu, fyrir Bologna. Hann hefur hins vegar einnig verið lánaður hingað og þangað undanfarin ár. Tímabilið 2021-22 var hann á láni hjá FC Kaupmannahöfn, tímabilið eftir fór hann til NEC í Hollandi og þá var hann á láni hjá Elfsborg í Svíþjóð síðasta eitt og hálfa tímabil.

Miðjumaðurinn á að baki 10 A-landsleiki og stefnir vonandi á að sama hvar hann mun spila á komandi leiktíð að frammistaða hans verði nægilega góð til að landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson kalli hann upp í A-landsliðið á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×