Viðskipti erlent

Hótar Kanada­mönnum hærri tollgjöldum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Trump hyggst hækka tollgjöld á Kanada á ný.
Trump hyggst hækka tollgjöld á Kanada á ný. Getty/Tasos Katopodis

Bandaríkjaforseti hyggst leggja 35 prósenta tollgjöld á innfluttar vörur frá Kanada. Löndin tvö hafa átt í samningaviðræðum um málið en nú þegar eru há tollgjöld í gildi.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, um áætlanir sínar í bréfi sem sá fyrrnefndi birti síðan á samfélagsmiðlinum sínum Truth Social. Þar segir að tollgjöldin eigi að taka gildi 1. ágúst.

„Eins og þú veist, það verða engin tollgjöld sett á Kanada, eða fyrirtæki innan landamæra landsins, ef sú ákvörðun er tekin að byggja og framleiða vörurnar í Bandaríkjunum,“ segir í bréfi Trumps.

Fulltrúar Kanada og Bandaríkjanna hafa átt í samningaviðræðum undanfarna mánuði um nýjan viðskipta- og varnarmálasamning þeirra á milli. Nú þegar er í gildi 25 prósenta tollgjöld á allar innfluttar kanadískar vörur að auki fimmtíu prósenta tollgjöld á allt ál og stál sem innflutt er til Bandaríkjanna. Þá er einnig 25 prósenta tollur á alla bíla og vörubíla sem ekki eru framleiddir í Bandaríkjunum.

Carney svaraði Trump í yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum X þar sem hann segir forsvarsmenn Kanada muni halda áfram vinnu sinni í að vernda kanadíska starfsmenn og fyrirtæki.

„Við erum að byggja sterkt Kanada. Sambandsríkið, héruð og landsvæði eru að ná verulegum árangri í að búa til eitt kanadískt hagkerfi,“ skrifar Carney.

Trump hefur sent og birt yfir tuttugu álíka bréf til annarra landa sem Bandaríkin eiga í viðskiptum við, þar á meðal Japan, Suður-Kóreu og Srí Lanka. Hærri tollgjöld eiga einnig að fara í gildi 1. ágúst. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×