Skoðun

Mennta­stefna 2030

Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Ég legg stoltur fram aðra aðgerðaáætlun Menntastefnu 2030 sem verður vegvísir fyrir menntaumbætur í öllu menntakerfinu næstu árin. Áætlunin er unnin í víðtæku samráði og markmið hennar er eitt og aðeins eitt, að ná betri árangri.

Menntastefna til ársins 2030 var samþykkt á alþingi árið 2021 og hefur ráðuneytið unnið samkvæmt henni allar götur síðan. Mikil umræða hefur verið um menntakerfið á liðnum misserum og ýmis sjónarhorn komið fram í umræðunni, bæði hér innanlands en einnig frá erlendum aðilum. Ríkur samhljómur er með þeim aðgerðum sem boðaðar eru í nýrri aðgerðaáætlun og þeim mikilvægu ábendingum sem hafa komið fram um menntakerfið m.a. frá OECD.

Vissulega er snert á mörgu í aðgerðaáætluninni, enda allt starf í leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, frístundastarfi og listnámi undir en ég leyfi mér að tiltaka nokkur atriði:

Bættur námsárangur og samræmdar mælingar. Markvisst samstarf heimila og skóla um menntun barna og farsæld barna og ungmenna. Aukin gæði kennslu á öllum skólastigum. Farsæl menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í inngildandi skólastarfi. Betri stuðningur við kennara og annað starfsfólk í skóla- og frístundastarfi. Áhersla félags- og tilfinningafærni barna og aukinn árangur þeirra í námi. Hagnýting rannsókna og gagna til þess að efla menntakerfið okkar. Bætt mat og eftirlit með skólastarfi.

Þetta eru allt atriði sem við getum sammælst um að séu mikilvæg en sannarlega eru ólík sjónarhorn á lofti um forgangsröðun og hversu mikil áhersla eigi að vera á hverja aðgerð. Næst er að kynna áætlunina vel, stilla upp framkvæmdaröð og fylkja fólki saman. Það er kominn tími til að ganga til verka. Við vitum hvað verkefnið er og ætlum að vinna það saman.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×