Körfubolti

Birti myndir af fólki, kalli það illum nöfnum og saki um ein­elti á meðan

Árni Sæberg skrifar
Brynjar Karl ræðir við lærisveina sína í Aþenu. Tugir fyrrverandi lærisveina hans hafa kvartað undan honum til samskiptaráðgjafa ÍSÍ.
Brynjar Karl ræðir við lærisveina sína í Aþenu. Tugir fyrrverandi lærisveina hans hafa kvartað undan honum til samskiptaráðgjafa ÍSÍ. Vísir/Diego

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands lýsir yfir stuðningi og samstöðu með starfsfólki samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs í kjölfar þess að frambjóðandi til forseta ÍSÍ bar samskiptaráðgjafann þungum sökum í vikunni. Hann er sagður ráðast harkalega með ofbeldi og hótunum að fagmennsku, heiðri og mannorði einstaklings sem sinnir hlutverki samskiptaráðgjafa.

Þetta segir í yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar sem send var fjölmiðlum í dag. Í áliti sem embætti samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs vann nýverið varðandi þjálfunarhætti Brynjars Karls Sigurðssonar, þjálfara Aþenu og frambjóðandi til forseta ÍSÍ, segir að það sé alvarlegt mál að Brynjar Karl tali um að „gera tilraunir“ á börnum með þjálfunaraðferðum sínum og áhyggjuefni að hann telji sig í því sambandi geta treyst á eigið innsæi, án þess að styðjast við viðurkennd fræði eða gagnreynda aðferðafræði.

Álitið var unnið eftir að fyrrverandi iðkendur Brynjars Karls hjá Aþenu og foreldrar þeirra leituðu til samskiptaráðgjafa og lýstu framferði hans í starfi. Framferði sem samkvæmt skýrslunni var talið fela í sér ógnandi framkomu og niðurlægjandi orðræðu.

Brást ókvæða við

Óhætt er að segja að Brynjar Karl hafi brugðist ókvæða við áliti samskiptaráðgjafans.

„Ég vona bara að þessir aðilar fari alla leið og reyni að klára þetta verkefni sitt, að bola mér út, svo að þetta geti farið á eitthvað dómstig. Það er eiginlega það sem ég óska mér. Að ég fái einhvern tímann alvöru rannsókn,“ sagði hann í samtali við Vísi á dögunum.

„Þetta er glæpsamlegt. Hreinn og klár glæpur. Það hefur aldrei verið brotið á mér svona,“ sagði Brynjar Karl og lýsti áliti samskiptaráðgjafa sem algjörri hrákasmíð, sem augljóslega væri til komin vegna rimmu hans við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands – sambandið sem hann sækist nú eftir að leiða.

Ekki rétta leiðin að ráðast að starfsfólki samskiptaráðgjafa

Í yfirlýsingu ÍSÍ segir að starf samskiptaráðgjafa hafi verið sett á laggirnar með lagasetningu eftir ákall um að einstaklingar innan íþrótta- og æskulýðsstarfs sem upplifa einelti, áreitni eða ofbeldi gætu fengið áheyrn, aðstoð og stuðning frá óháðum aðila og leitað réttar síns vegna atvika og misgerða án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Frá árinu 2020 hafi samskiptaráðgjafi fengið yfir fjögur hundruð tilkynningar og meirihluti þeirra tilheyri mála íþróttahreyfingunni. Hlutverk samskiptaráðgjafa sé meðal annars að stuðla að öryggi þeirra sem taka þátt í starfsemi íþróttafélaga og að leiðbeina þeim einstaklingum sem til hans leita og afla upplýsinga um mál þeirra. Einstaklingur sem sakaður er um áreitni eða ofbeldi fái þannig tækifæri til að koma sinni hlið málsins á framfæri. Sé viðkomandi ósáttur við vinnulag samskiptaráðgjafa sé rétt að beina slíkum erindum til mennta- og barnamálaráðuneytisins sem starfið heyrir undir. 

„Að ráðast opinberlega gegn starfsfólki embættisins er ekki rétta leiðin.“

Tugir iðkenda hafi leitað til ráðgjafans

Frambjóðandi til forseta ÍSÍ, Brynjar Karl Sigurðsson, hafi stigið fram og lýst því yfir að samskiptaráðgjafi hefði rýnt í störf hans og skilað um þau skýrslu. Það hafi verið gert eftir að tugir fyrrverandi iðkenda Brynjars Karls og foreldrar þeirra höfðu leitað til samskiptaráðgjafa vegna samskipta við hann.

Í fjölmiðlum hafi komið fram að Brynjar Karl sé ósáttur við niðurstöðu skýrslunnar og hafi í stað þess að fara með málið í hefðbundinn farveg og beina athugasemdum sínum til mennta- og barnamálaráðuneytis, brugðist við með því að ráðast harkalega með uppnefnum og hótunum að fagmennsku, heiðri og mannorði einstaklings sem sinnir hlutverki samskiptaráðgjafa.

„Brynjar Karl hefur einnig um langt skeið opinberlega nafngreint fólk sem ýmist starfar í íþróttahreyfingunni eða í samstarfi við hana, birt af þeim ljósmyndir og myndskeið, kallað þau illum nöfnum og vegið að heilindum þeirra og mannorði á sama tíma og hann sakar þau um að leggja sig í einelti. Þetta fólk á það flest sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti verið ósammála honum eða gagnrýnt aðferðir hans eða slæma framkomu á einhvern hátt. Framkvæmdastjórn ÍSÍ harmar að viðkomandi einstaklingar þurfi að sitja undir slíku áreiti.“

Innan íþróttahreyfingarinnar sé mikil áhersla lögð á háttvísi, heilindi og velferð iðkenda, starfsfólks og sjálfboðaliða. Framkoma sem þessi fari þvert gegn gildum íþróttahreyfingarinnar og eigi ekki heima innan hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×