Lífið

Kveðju kastað á Megas í til­efni dagsins

Jakob Bjarnar skrifar
Megas og hljómborðsleikarinn Davíð Þór fara yfir lagið Tvær stjörnur, ein af perlum úr safni Megasar. Þetta er úr nýlegri mynd Spessa um Megas, sem menn hafa verið hikandi við að sýna á Ríkissjónvarpinu. En hún hlaut hins vegar frábæra aðsókn í kvikmyndahúsum þegar hún var sýnd þar eða 1.400 manns mættu og keyptu sig inn.
Megas og hljómborðsleikarinn Davíð Þór fara yfir lagið Tvær stjörnur, ein af perlum úr safni Megasar. Þetta er úr nýlegri mynd Spessa um Megas, sem menn hafa verið hikandi við að sýna á Ríkissjónvarpinu. En hún hlaut hins vegar frábæra aðsókn í kvikmyndahúsum þegar hún var sýnd þar eða 1.400 manns mættu og keyptu sig inn. spessi

Einhver áhrifamesti tónlistar- og kvæðamaður landsins – Magnús Þór Jónsson aka Megas – er áttræður í dag. Á Facebook má sjá marga kasta kveðju á skáldið. Lausleg rannsókn leiðir í ljós að aðdáendur hans eru einkum karlmenn þó stöku kvenmaður slæðist með.

Í það minnsta fundust fáar afmæliskveðjurnar á þessum vinsælasta samfélagsmiðli heims sem konur höfðu kastað á karlinn. Óttar Guðmundsson læknir reið reyndar á vaðið fyrir tveimur dögum og lagði sinn Stofugang á Eyjunni undir pistil um Megas.

Óttar rekur ferilinn, sem er mikill vöxtum og segir Megas hafa verið eins konar „enfant terrible“ í íslenskum menningarheimi.

„Hann hagaði sér á engan hátt eins og ráðsettum tónlistarmanni sæmdi heldur storkaði samfélaginu í sífellu með framferði sínu og textum. Fæstir efuðust þó um sköpunargáfu hans og snilld.“

Óttar víkur þá að máli sem varð til þess að hljótt var um Megas og hefur verið lengi.

„Fjölmiðill rifjaði upp gamalt mál og málaði skáldið í biksvörtum litum. Þá kom í ljós að margir höfðu gegnum árin hneykslast á skáldinu og afneituðu nú Megasi endanlega. Alls konar fólk tók þátt í grjótkastinu í nafni frjálslyndis og víðsýni.“

Óttar Guðmundsson geðlæknir segir að naumlega hafi tekist að afstýra því að Megas væri tekinn af heiðurslaunum listamanna.vísir/ernir

Óttar fer ekki í grafgötur með að hann telur þarna útskúfunarofsann hafa útilokað kristileg kærleiksblóm: 

„Í þessu tiltekna máli talaði enginn um tíðarandinn á þessum tíma. Ekki nokkur maður bað þann sem syndlausan væri að kasta fyrsta steininum eins og gert var á dögunum þegar gamalt vandræðamál var dregið fram í dagsljósið. Sumir þingmenn vildu meira að segja svipta hann lífsbjörginni og heiðurslaunum listamanna. Velunnurum Megasar á þingi tókst að koma í veg fyrir þann skelfilega gjörning.“

Óttar segir að á seinni árum hafi heilsa Megasar bilað en hugurinn sé skarpur sem fyrr. Vonandi sýni Rúv frábæra kvikmynd Spessa um skáldið, í tilefni afmælisins og votti þessu öndvegisskáldi þjóðarinnar viðeigandi virðingu.

Ljóðrænn sálusorgari þjóðar

Jónas Sen, tónlistargagnrýnandi Vísis með meiru, segir erfitt að ímynda sér íslenskt tónlistarlíf án Megasar og því sé tilefni til að staldra við: „… og virða fyrir sér þann djúpa og marglaga menningararf sem hann hefur skapað með orðum sínum, tónum og nærveru. Það er ekki ofmælt að segja að Megas hafi gjörbreytt íslenskri tónlist – og jafnvel íslenskri sjálfsmynd.“

Jónas splæsir í vænan afmælispistil þar sem saga Megasar sem hann segir óþægan sannleiksmælanda, meinfyndinn spegill samfélagsins, og um leið ljóðrænn sálusorgari þjóðarinnar, er rakin.

„Enginn hefur, með sama hætti, tekst við íslenskt tungumál og brugðið ljósi á hið tvíræða, fáránlega, fagra og sorglega í mannlífinu. Textar hans eru samofnir menningararfi þjóðarinnar – þar renna saman Hallgrímur Pétursson, Bob Dylan, Hávamál og götustrákurinn úr Reykjavík.“

Jónas segir aldrei hafa verið „poppari“ í hefðbundnum skilningi, en hann varð goðsögn – ekki aðeins fyrir tónlist sína heldur fyrir hugsun sína, stíl og andóf.

„Hann sagði það sem aðrir þorðu ekki að segja, bjó til persónur sem lifðu eigin lífi í söngtextum hans og afhjúpaði hræsni og yfirborðsmennsku með kaldhæðinni kímni.“

Þegar Megas vakti Sigurð

Talsvert stór hópur tónlistarmanna, sem hafa jafnvel starfað með Megasi í gegnum tíðina, kasta á hann kveðju. Það gera þeir félagar Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Kristinn Jónsson, hvor í sínu lagi. En þeir voru í Senuþjófunum:

„Samstarf Senuþjófanna og þín er eitt af allra skemmtilegustu verkefnum sem ég hef tekið þátt í á mínum tónlistarferli. Það var mikið brallað, fimm plötur og þétt spilað. Þú veist hvað þeir segja - að maður eigi aldrei að hitta idolið sitt - en í þessu tilfelli á það ekki alls ekki og ég þakka fyrir góð kynni og margar góðar minningar,“ segir Guðm. Kristinn.

Vígalegir Senuþjófar.

En Sigurður segir skemmtilega sögu:

„16 ár síðan þetta gerðist. Ég rétt skriðinn yfir þrítugt. Kallinn rúmlega sextugur. Og þvílík þeysireið.

-Við vorum að fara af stað í hringferð og ég hafði sem oftar verið eitthvað að brasa aðeins frameftir nóttu og sinnti víst engu áreiti þennan morgun. Rumska loks við að sjálfur Megas er kominn að vekja mig.

Ég segi nú bara geri aðrir betur!“

Eitt af höfuðskáldum samtímans

Pálmi Gunnarsson er svo annar sem spilaði einmitt með Megasi:

„Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna með Megasi á tveimur plötum: Fram og aftur blindgötuna sem var hljóðversplata tekin upp í Hljóðrita 1976 og svo Drög að sjálfsmorði sem var hljóðrituð á tónleikum í Menntaskólanum í Hamrahlíð 1979. Það var mögnuð upplifun að vinna með ljúfmenninu Megasi.“

Pálmi segir Megas eitt af höfuðskáldum landsins og hittir þar örugglega naglann á höfuðið.

Pálmi segir Megas hnyttinn, eldkláran og eitt lifi í minningunni sem sé að hann hafi aldrei heyrt Megas tala illa um nokkurn mann:

„Megas er án þess að á nokkurn sé halla eitt af höfuðskáldum og lagasmiðum samtímans og ætti ef allt væri eðlilegt að fá verðskuldaða athygli á stórafmælinu. Ég reikna með veisluhöldum á RUV og öðrum ljósvakamiðlum. Til hamingju Megas og takk fyrir mig.“

Gengið saman fram af björgum vandlætingarmanna

Fermingarbróðir Megasar, Hörður Torfason segist vita að hann sé einhversstaðar „rúllandi um í hjólastól“ og hann muni hugsa fallega til hans sem ætíð.

Hörður Torfason er fermingarbróðir Megasar og sendir honum knús í tilfefni dagsins.vísir/gva

„Leiðir okkar hafa legið sundur og saman síðan við fermdumst í Hallgrímskirkju. Fjallabaksleiðir, hraðbrautir, einstigi, troðningar, grýttar götur sem sléttar. Við höfum hoppað eftir þeim saman eða í sundur en alltaf með djúpri virðingu fyrir hvor öðrum og verið samstíga í þeim leik að vera til og hafa gaman að því að skapa.“

Hörður segir þá tvo ítrekað hafa gengið fram af björgum vandlætingarmanna „en þeir áttuðu sig aldrei á því að menn sem kunna að svífa þurfa ekki fallhlífar. Þú ert bestur. Knús.“

Stórveldi tónlistar og íslenskrar tungu

Gunnar Lárus Hjálmarsson, Dr. Gunni, tónlistarmaður og gagnrýnandi, segir:

Það er nú meira hvað öllum liggur á að verða áttræðum í ár. Gunni Þórðar, Vilhjálmur, Magnús Eiríksson og (listinn er ekki tæmandi) Megas, sem er einmitt 80 í dag og hefðu fáir trúað því fyrir hálfri öld.

Hann er held ég bara þokkalega hress miðað við aldur og fyrri störf.“

Dr. Gunni kvartar undan því að lélegt megi heita að ekkert „tribjút“ sé í gangi, en það sé kannski bara ágætt líka.

Dr. Gunni segir alla hugsandi menn sér meðvitaða um snilligáfu Megasar.

„Óþarfi að spúa hér fram hástemmdum lýsingum á snilld meistarans, hún er öllum hugsandi mönnum ljós, en við hæfi að maður spili plötur Megasar í sinni bubblu í dag. Af nægu stórkostlegu er að taka.“

Og Grímur Atlason tónlistarmaður og framkvæmdastjóri Geðhjálpar, fóstbróðir Doktorsins, segir Megas svo algjört stórveldi tónlistar og íslenskrar tungu. „Skál fyrir Megasi!“ segir bindindismaðurinn Grímur og birtir ljóð eftir Megas:

Þóttú farir um framandi höf

í fjarlægum deildum jarðar

og sjóirnir hyggist að svelgja þér fley

og séu þér lífsvonir sparðar,

á hinstu stundu ertu halaður upp

hinir þá týna hver sér

því þótt þú gleymir guði

þá gleymir guð ekki þér.

Þóttú í Kínahverfið inn

klaufskist í sorta nætur

og Kínamaður með stóran sting

úr stáli hann gefi þér gætur

á elleftu stundu þá fær hann flog

og fellur að fótum sér

því þótt þú gleymir guði

þá gleymir guð ekki þér.

Þótt bráðkvaddan missurðu miðilinn þinn

sem ei máttirðu við að sjá af

og allt renni eftir einni slóð

útí hið hyldýpsta haf,

í krísunni vitrast þér andar per e.s.p.

óvígur hjálpræðisher

því þótt þú gleymir guði

þá gleymir guð ekki þér.


Á háalofti vinstri manna

Skáldin kasta einnig á Megas kveðju og Anton Helgi Jónsson er fulltrúi þeirra.

„Ég sá fyrst til Megasar og heyrði í honum uppi á háalofti vinstri manna við Grettisgötuna. Þangað fór maður oft til að hlusta á fólk sem var á móti hernaðarbandalögum og stundum var boðið upp á skemmtiatriði sem voru þó örugglega ekki kölluð því nafni.“

Og Anton segir að eitt sinn hafi Megas verið kynntur til leiks.

„Hann var með gítargarm með sér og ætlaði aldrei að geta stillt hann en tókst það eflaust að lokum. Ég man ekkert eftir því hvað hann söng, ég man bara hvað hann var lengi að stilla gítarinn. Nokkru áður en þetta var hafði ég hlustað á plötuna hans og varð orðlaus af undrun og aðdáun en gat þó ekki fyrirgefið honum að láta skáldið Jónas hrjóta eins og sögunarverksmiðju í Brasilíu.“

Anton Helgi Jónsson ljóðskáld segir gamla sögu af samskiptum sínum við Megas.

Anton var þarna undir tvítugu og segist hafa vitað allt.

„Ekki veit ég hvað Megas var gamall þarna á vinstrimannaloftinu en mér skilst að hann sé áttræður í dag. Mér finnst sem ég heyri stöku plíng og plang í fjarska. Mig grunar að Megas sé enn að stilla gítarinn á einhverju háaloftinu. Mér finnst sem hann hafi ekki verið að gera neitt annað í öll þessi ár en að stilla strengina fyrir mig. Þegar hann hefur ekki verið að því hefur hann legið sofandi útí horni. Sjálfum hefur mér ekki komið dúr á auga því Megas hefur haldið fyrir mér vöku með hrotum sínum.“

Sýnið nú myndina hans Spessa

Fjölmiðlamenn kasta einnig kveðju á Megas og Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins er einn þeirra. Hann segir gaman að hafa heyrt Megas á Rás eitt í morgun. Og hann tekur undir með Óttari að vonandi sýni RÚV frábæra mynd Spessa og Jón Karls um Megas í kvöld. Samkvæmt heimildum Vísis er Ríkisútvarpið búið að kaupa réttinn en eitthvað eru menn hikandi við að setja hana á dagskrá.

„Það er galdur í þeirri mynd, hvernig fjallað er um langan feril og ævi listamanns, sem fjallar um eigin breyskleika og hráslaga samfélagsins, hvernig við meiðum hvort annað, en á líka fegurstu ástarsöngva sem hafa verið sungnir á okkar tungu.“

Gunnar Smári segist af þeirri kynslóð manna að Megas hafi komið til sín þegar hann var á táningsaldri:

„Ásamt öðrum stórgölluðum mönnum, Degi Sigurðarsyni, Guðbergi Bergssyni, Einar Guðmundssyni sem kallaður var Litlaskáld og fleirum, og sem hristu aldeilis upp í mér, sneru mörgu á hvolf en brugðu skörpu ljósi á annað, sem fram að því hafði verið illskiljanlegt, upphafið, leiðinlegt og illa þefjandi.“

Gunnar Smári dansaði við Megasarlag á Borginni

Megas er af Elvis-kynslóðinni, að sögn Gunnars Smára og hafi komið til hans í gegnum ´68-kynslóðina en það hafi klárlega verið pönkið í „Við sem heima sitjum“ sem hreif hann á sínum tíma. „Gott ef ég dansaði ekki við það á Borginni,“ segir Gunnar Smári og menn geta reynt að sjá hann fyrir sér á dansgólfinu.

Páll Baldvin Baldvinsson rithöfundur hefur svo haft sitthvað af Megasi að segja í gegnum tíðina. Hann efast um að kveðja hans berist Megasi af Facebook.

Páll Baldvin segir þá Megas hafa haft sitthvað saman að sælda, einkum á árum áður.vísir/vilhelm

„Margt á ég honum að inna, við vorum samferða á annan áratug í bralli: upptökum, útgáfum, tónleikum og samkvæmum heima og heiman. Fyrst vil ég þakka félagsskapinn og vináttuna, síðan kveðskapinn og tónsmíðarnar, góðar stundir og breyska daga. Því sendi ég honum bestu kveðju sem berist í blænum. Til hamingju með daginn Maggi minn.“

Óli Palli missir af tónleikum Bubba og Megasar

Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður skrifar svo langan pistil um Megas og birtir á Facebook-síðu sinni.

„Meistari Megas eins og hann var alltaf kallaður – en svo féll hann af stallinum,“ segir Ólafur Páll.

„Ég man hvað mér fannst mikið til koma þegar ég rakst á hann á gangi í Austurstræti uppúr 1980 þegar ég var að heimsækja afa í Herradeild P&Ó – Þarna var hann – líklega með 2 syni með sér. Rás 2 spilaði Megas mikið á fyrst árunum og maður heyrði þetta iðulega - Meistari Megas!“

Óli Palli rifjar upp það þegar hann var á síldarsjómaður þegar spurðist að Bubbi og Megas yrðu með tónleika í Bíóhöllinni á Akranesi. „Ég var miður mín,“ segir útvarpsmaðurinn en Jóhannes Hreggviðsson kokkur á skipinu hafi gert þetta bærilegt með kjúklingaveislu.

„Megas er áreiðanlega skáld“

Ekki er það svo að konurnar láti sem Megas sé ekki til, ekki alveg. Helga Kress prófessor emeritus segir að Halldór Laxness hafi sagt í sín eyru, einhvern tímann á áttunda áratugnum: „MEGAS er áreiðanlega skáld.“

Megas verður seint allra.vísir/gva

Og Lára Magnúsdóttir doktor í sagnfræði rifjar upp þegar hún rannsakaði allar plötur Megasar ásamt Þórði heitnum bróður sínum:

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að Megas væri MRingur. Lítill vandi var að fá það staðfest en af því mátti líka draga þá ályktun að hann væri afsprengi þeirrar menntastefnu sem hann virtist á einhverju plani ólíkastur.“

Nú eru liðin 40 ár síðan þetta var; „þá hefur Megas verið um fertugt, því að nú er hann áttræður“.


Tengdar fréttir

Hann breytti öllu – og gerði það með háði

Það eru fáir einstaklingar sem hafa haft jafndjúp og margræð áhrif á íslenska menningu og listalíf og Magnús Þór Jónsson – Megas. Nú þegar hann fagnar 80 ára afmæli sínu ber að staldra við og virða fyrir sér þá arfleifð sem hann hefur skilið eftir sig: óhefðbundna og stundum óþægilega spegilmynd af sjálfsímynd þjóðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.