Skoðun

Hrynur sjávarút­vegur?

Stefán Ólafsson skrifar

Sjávarútvegur hefur malað gull. Enda er hann með mun betri afkomu en flest fyrirtæki í öðrum greinum atvinnulífsins. Það er vegna hagstæðra skilyrða, sem meðal annars felast í ódýru aðgengi að sjávarauðlind þjóðarinnar.

Eins og sjá má af myndinni sem hér fylgir mun fyrirhuguð hækkun veiðigjalda um ca. 10 milljarða litlu breyta um sterka stöðu sjávarútvegs, umfram önnur fyrirtæki í landinu.

Ef reiknireglu núverandi stjórnvalda hefði verið beitt á tímabilinu 2014 til 2023 þá hefði hagnaður sjávarútvegs verið að jafnaði 20% af veltu í stað 24%. Þetta er hófleg breyting.

Meðalhagnaður fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu í heild var hins vegar um 9%. Yfirburðastaða sjávarútvegs verður því áfram við lýði. Útvegsmenn munu áfram geta fjárfest bæði í sjávarútvegi og í öðrum greinum atvinnulífsins, vegna þess mikla umframhagnaðar sem greinin býr við.

Útvegsmenn munu því geta haldið áfram að eignast allt sem verðmætt er á Íslandi. Kanski er boðuð hækkun full lítil, ef eitthvað er!

Stjórnvöld hyggjast nota þá fjármuni sem hófleg hækkun veiðigjalda skilar í innviðaframkvæmdir, til dæmis í vegagerð á landsbyggðinni. Það verður gott fyrir landsbyggðina - og almenning allan.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.




Skoðun

Sjá meira


×