Lífið

Að­stoðar­mennirnir og ástin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ráðherrar eiga skemmtilegar tengingar við aðstoðarmenn sína. Hér má sjá aðstoðarmennina Ólaf Kjaran, Ingileif Friðiksdóttur og Guðbjörgu Magnúsdóttur sem öll eru mætt til starfa fyrir ráðherra ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.
Ráðherrar eiga skemmtilegar tengingar við aðstoðarmenn sína. Hér má sjá aðstoðarmennina Ólaf Kjaran, Ingileif Friðiksdóttur og Guðbjörgu Magnúsdóttur sem öll eru mætt til starfa fyrir ráðherra ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.

Ráðherrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafa verið að ráða sér aðstoðarmenn undanfarnar vikur. Í einhverjum tilfellum má segja að ekki sé leitað langt yfir skammt.  Sumir aðstoðarmenn tengjast ráðherrum sökum þess að ástarguðinn Amor skaut örvum sínum og hitti beint í mark.

Guðbjörg hennar Ástu Lóu og Ragnars

Nýjasti aðstoðarmaðurinn er Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir sem er nýr aðstoðarmaður Ásthildar Lóu Þórsdóttur mennta- og barnamálaráðherra. Guðbjörg Ingunn þarf líkast til að bretta upp ermar á fyrstu dögum enda nóg að gera hjá ráðherra hennar í menntamálunum sökum verkfalls kennara.

Guðbjörg Ingunn er eiginkona Ragnars Þórs Ingólfssonar, þingmanns Flokks fólksins, formanns fjárlaganefndar og fyrrverandi formanns VR. Ásthildur var nýkomin inn í ráðuneytið þegar Guðbjörg Ingunn var ráðin þangað í upphafi árs. Um var að ræða tímabundna stöðu, samkvæmt svörum úr ráðuneytinu vegna leyfis starfsmanns, og því ekki um auglýst starf að ræða. Ekki frekar en störf aðstoðarmanna ráðherra.

Ásthildur Lóa og Guðbjörg Ingunn störfuðu saman í Árbæjarskóla á sínum tíma. Ásthildur Lóa og Ragnar Þór hafa unnið náið saman undanfarin misseri sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og formaður VR. Þau hafa skrifað fjölda greina saman og látið í sér heyra.

Ingileif hennar Þorgerðar og Maríu Rutar

Ingileif Friðriksdóttir fjölmiðlakona fór mikinn í kosningabaráttu Viðreisnar sem segja má að hafi unnið góðan kosningasigur í Alþingiskosningunum 30. nóvember. Hún var á þeytingi með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formanni flokksins vikurnar fyrir kosningar.

Ingileif tók við starfinu af Maríu Rut Kristinsdóttur, eiginkonu sinni, sem hafði verið aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar með hléum frá árinu 2017. María Rut var oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi þ.a. Ingileif stökk inn fyrir hana að aðstoða Þorgerði.

Eftir kosningarnar lá svo beinast við að Ingileif héldi áfram að aðstoða Þorgerði Katrínu sem er í dag utanríkisráðherra.

Kristrún, Ólafur og Jóhann Páll

Það kom fáum á óvart þegar tilkynnt var í janúarbyrjun að Ólafur Kjaran Árnason hefði verið ráðinn aðstoðarmaður Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra.

Hann hefur verið formlegur aðstoðarmaður hennar síðan Kristrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar í október 2022. Ólafur Kjaran er fjölskyldumaður en ástin í lífi hans er Maja Jóhannsdóttir hagfræðingur hjá Landsbankanum og systir Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Kristrún og Jóhann Páll hafa unnið afar náið saman hjá Samfylkingunni undanfarin ár og með þeim Ólafi Kjaran má ætla að ríki svo til fjölskyldustemmning á stundum enda öll fólk á fertugsaldri með ung börn sem sum hver eru frændsystkini.

Á neðan má sjá aðstoðarmennina sem ráðherrar í ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins hafa ráðið sér.

Alma Möller heilbrigðisráðherra

  • Guðríður Lára Þrastardóttir
  • Jón Magnús Kristjánsson

Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra

  • Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir

Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra

  • Jón Steindór Valdimarsson

Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

  • Alexander Jakob Dubik
  • Andri Egilsson

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra

  • Óli Örn Eiríksson
  • Stefanía Sigurðardóttir

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra

  • Hreiðar Ingi Eðvarðsson
  • Sigurjón Arnórsson

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

  • Jóna Þórey Pétursdóttir
  • Lárus M. K. Ólafsson

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra

  • Ólafur Kjaran Árnason

Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra

  • Halla Jónsdóttir
  • Tómas Guðjónsson

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra

  • Jakob Birgisson
  • Þórólfur Heiðar Þorsteinsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra

  • Aðalsteinn Leifsson
  • Ingileif Friðriksdóttir

Þá hafa þau Anna Rut Kristjánsdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir og Sveinbjörn Finnsson hafa verið ráðin aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.