Þýskaland endaði í 6.sæti á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í handbolta og spruttu fram einhverjar gagnrýnisraddir eftir að örlög liðsins á mótinu urðu ljós, einhverjir sem töldu árangurinn ekki góðan og fóru af stað umræður um framtíð Alfreðs í starfi.
Ekki er langt síðan að samningur Íslendingsins í starfi var framlengdur og sömuleiðis er ekki langt síðan að þýska landsliðið vann til verðlauna undir hans stjórn, silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í París í fyrra.
Í samtali við Bild í Þýskalandi tók Andreas Michelmann, forseti þýska handknattleikssambandsins, af allan vafa varðandi framtíð Alfreðs í starfi.
„Við ákváðum á síðasta ári að framlengja samning okkar við Alfreð fram yfir Heimsmeistaramótið 2027. Á þeim tíma var það bundið því skilyrði að við myndum tryggja okkur sæti á Ólympíuleikunum sem og við gerðum og það rækilega. Liðið vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum og var það fram úr okkar markmiðum. Það er engin ástæða fyrir þýska handknattleikssambandið að breyta einu eða neinu í samningi Alfreðs.“
„Við erum ekki í Prúðuleikurunum. Ef allar helstu handboltaþjóðir heims færu í þjálfarabreytingar eftir að hafa ekki unnið til verðlauna þá væri þetta algjör hringekja.“
Forráðamenn þýska handknattleikssambandsins beri fullt traust til Alfreðs. Þýskaland verður á heimavelli á næsta heimsmeistaramóti árið 2027 og að öllu óbreyttu verður það Alfreð sem stýrir liðinu þar.