Góð loðnuvertíð geti skilað þjóðarbúinu um 60 milljörðum á tveimur mánuðum en léleg um 20 milljörðum. Verði loðnubrestur aftur eins og í fyrra þýði það engar tekjur og það sjáist á hagtölum.
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson lagði upp frá Hafnarfirði. Þrjú skip frá útgerðinni taka þátt í leitinni að þessu sinni; Barði NK, skip Síldarvinnslunnar, grænlenska skipið Polar Ammassak, en þau héldu úr Neskaupstað, og Heimaey VE, skip Ísfélagsins, sem siglir frá Þórshöfn. Hér má sjá leitarferla skipanna.
Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknarstofnunar, segir skipin byrja norðaustan við landið vegna þess að veðurhorfur séu bestar þar eins og stendur.
„Svo verður þessu framhaldið og leitað fyrir austan land og norðan,“ segir hann og að það verði leitað langleiðina að Grænlandi.
Hann segir að það hafi borist fregnir af loðnu fyrir austan og þeir komist fljótt í hana. Hann segir enn von á að finna hana.
„Við höfum trú á því að það gæti orðið eitthvað,“ segir Guðmundur og að þau verði að sjá hversu mikið það verður. Fókusinn sé núna á að ná nákvæmri mælingu á magni og stærð stofnsins og hversu mikið, eða hvort, það verður hægt að gefa ráðgjöf.
Hann segir þennan leiðangur geta tekið um viku og að því loknu verði unnið úr niðurstöðunum. Þau reyni að vinna þetta fljótt og mögulega liggi það fyrir eftir um tíu daga hvort það verði loðnuvertíð í ár eða ekki.