Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að loðnubrestur varð í fyrra. Núna hafa menn verulegar áhyggjur af því að þetta geti orðið raunin annað árið í röð, sérstaklega í þeim byggðum þar sem gert er út á loðnuna.
En fyrsta skrefið er að leita að loðnunni. Á korti Hafrannsóknastofnunar sjáum við leitarferla Aðalsteins Jónssonar sem kom inn til heimahafnar á Eskifirði snemma í morgun eftir sex daga loðnuleit úti fyrir Norður- og Norðausturlandi.

„Það var eitthvað lítilsháttar að sjá við Sléttugrunn, óverulegt magn. Og svo var þarna á Kolbeinseyjarhryggnum eitthvað meira.
En magnið í heild er lítið, það sem var komið þarna. Sem segir okkur að hún er ekki langt gengin í austur, enn sem komið er. Við vorum ekkert að fara vestar í bili,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Athygli vekur að skip útgerðarinnar Eskju var það eina sem sinnti loðnuleit að þessu sinni meðan hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson lágu bundin við bryggju í Hafnarfirði. En afhverju eru þau ekki úti að leita?

Guðmundur segir ekki tímabært að blása til mikillar loðnuleitar núna.
„Við viljum að hún sé komin undan ísnum þarna norður af landinu. Og komin inn á þessi svæði fyrir austan og norðaustan við land þar sem er betra að mæla hana og ná utan yfir stofninn.“
Loðnan hefur undanfarna áratugi verið næst mikilvægasti nytjastofn þjóðarbúsins, á eftir þorskinum. Hún getur vegið hálft til eitt prósent í hagvextinum. Það eru því gríðarlegir hagsmunir undir.
En hvenær verður þá hægt að hefja loðnuleit fyrir alvöru?
„Það verður allavega ekki í byrjun janúar, miðað við niðurstöðuna úr þessum leiðangri. Við sjáum til.
En sá leiðangur ætti allavega að segja til um hversu stór kvótinn verði í ár, og hvort það verði kvóti yfirleitt.“
Og Guðmundur, sem sjálfur er fiskifræðingur, er þokkalega bjartsýnn á vertíð, eins og heyra má hér:
„Já, já. Það getur farið í báðar áttir. Í raun, það sem mælist í haust er raunar bara á mörkum þess að gefa einhvern.
Það er óvissa í kringum allar þessar mælingar. Óvissan getur alveg farið í þá áttina að við séum að vanmeta.
Já, já. Það er alveg full ástæða til að ætla að það gæti orðið vertíð.“
-En yrði hún þá lítil?
„Já, við verðum að gera ráð fyrir því að þetta sé ekki stór vertíð. En vonandi einhver,“ svarar sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.