Skoðun

Ný­sköpun skapar aukna hag­sæld

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar

Það er mér mikið kappsmál að tryggja samkeppnishæft umhverfi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja. Þar hefur skattafrádráttur fyrir rannsóknar- og þróunarverkefni fyrirtækja vegið þungt.

Þetta kerfi á þó átt undir högg að sækja. Þó er um að ræða fjárfestingu í nýjum hugmyndum og verðmætasköpun sem skapar störf og reynslan sýnir að þetta kerfi ýtir undir stóraukna fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun.

Það sjáum við beint af árangri síðustu ára eftir að Sjálfstæðisflokkurinn bætti kerfið til muna í upphafi heimsfaraldurs. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafa tvöfaldast á fimm árum og námu árið 2023 yfir 300 milljörðum króna. Útflutningstekjur greinarinnar jukust um tæplega 17% á fyrri helmingi þessa árs og gangi áform fyrirtækja eftir hefur greinin þrefaldað útflutningsverðmæti sitt á einum áratug. Um 18.000 manns starfa nú í tækni- og hugverkagreinum, í verðmætum hálaunastörfum þar sem verðmætasköpun á hverju vinnustund er meiri en almennt í hagkerfinu.

Í frumvarpi sem var nýlega kynnt í samráðsgátt stjórnvalda voru lagðar til breytingar á þessum reglum, sem hefði að öllu óbreyttu gengið verulega á það öfluga kerfi sem byggt hefur verið upp. Ég fagna þeim fjölda umsagna sem bárust þar sem bent var á ótvíræðan ávinning kerfisins. Það hefur orðið til þess að frumvarpið, sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi af fjármálaráðherra, stendur betur vörð um kerfið en upphaflega var ráðgert. Við náðum fram mikilvægum breytingum sem eru í samræmi við þær áherslur sem ég hef lagt upp með og unnið eftir í mikilvægu stuðningskerfi nýsköpunar hér á landi. Þakið er nú komið í einn milljarð, 34% endurgreiðsla fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og 22,5% fyrir stærri fyrirtæki. Á sama tíma er brugðist við mikilvægum ábendingum OECD sem tók út kerfið hérlendis, eftirlit aukið og endurgreiðslurnar skilgreindar betur.

Við þurfum að halda áfram að berjast fyrir samkeppnishæfu umhverfi fyrirtækja á Íslandi, hvernig getum við gert fólki auðveldara að stofna fyrirtæki og sækja fram á Íslandi.

Ég mun halda áfram að leggja mig fram og berjast fyrir því að hugmyndir fólks verði að veruleika og að fjárfest verði í nýjum hugmyndum og aukinni verðmætasköpun. Þannig verða til fleiri fyrirtæki og störf um leið og önnur fyrirtæki stækka og velja að vera áfram með starfsemi sína á Íslandi. Þannig ýtum við undir enn frekari hagsæld hér á landi.

Nú verður spurning hvort stjórnmálamenn ætla að verja leiðir sem ýta undir verðmætasköpun og styðja við Nýsköpunarlandið Ísland, eða leggja steina í götur nýrra hugmynda og framtakssamra einstaklinga.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×