Erlent

Halda á­rásum á­­fram og beina sjónum að eld­flauga­stæðum Hez­­bollah

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Tugþúsundir flúðu heimili sín í kjölfar viðvarana Ísraelshers í gær og á myndum má sjá hvernig umferðaröngþveiti myndaðist.
Tugþúsundir flúðu heimili sín í kjölfar viðvarana Ísraelshers í gær og á myndum má sjá hvernig umferðaröngþveiti myndaðist. AP/Mohammed Zaatari

Ísraelsher hefur haldið loftárásum sínum á Líbanon áfram í nótt eftir harðar árásir gærdagsins þar sem um 500 eru sagðir hafa látist og um 1.600 særst.

Í nótt var áherslan lögð á að eyðileggja eldflaugastæði Hezbollah samtakanna þaðan sem flaugum hefur verið skotið í átt að Ísrael síðustu daga. Einnig segist herinn hafa sprengt nokkrar vopnageymslur í loft upp. 

Tugþúsundir íbúa í suðurhluta Líbanon eru sagðir hafa flúið heimili sín, eftir viðvaranir Ísrael í gær. Búið er að koma upp um 90 fjöldahjálparstöðvum í skólum og öðrum byggingum þar sem hægt verður að taka á móti allt að 26.000 manns.

Hezbollah segjast hafa skotið um 200 eldflaugum á Ísrael í gær. Þar eru tveir sagðir hafa særst eftir að hafa orðið fyrir sprengjubrotum. 

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti um það í gærkvöldi að Bandaríkjaher muni fjölga í herliði sínu á svæðinu umfram það sem nú er. 

Ekki var farið nánar út í hversu margir hermenn verði sendir á staðinn en Bandaríkjamenn hafa síðustu mánuði verið að fjölga í liði sínu og meðal annars sent flugmóðurskipið Abraham Lincoln á staðinn.

Óttast er að átökin síðustu daga og vikur muni enda í allsherjarstríði en Bandaríkjamenn eru sagðir vinna að því hörðum höndum á hliðarlínu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í Washington að koma í veg fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×