„Já! Þetta stemmir. Þetta eru réttar mælingar. Veðrið er svona núna,“ segir Eiríkur Örn Jóhannsson veðurfræðingur í samtali við fréttastofu.
Hann segir að veður sem þetta sé í raun ekkert einsdæmi, svona gerist um það bil einu sinni á hverjum vetri.
„Það sem að gerist er að það er lægð hérna vestur af landi við strendur Grænlands sem dælir til okkar hlýju og röku lofti. Það í bland við ákveðinn vind, eins og erum með núna víðast hvar, þá fáum við þessi hnjúkaþeyráhrif. Þá kemur rakt loft að landinu sunnanverðu sem lyftist upp á Hálendið og þornar, sem þýðir að það hlýnar þegar það kemur niður hinum megin,“ útskýrir Eiríkur.
Þegar blaðamaður náði tali af honum sagði hann að hitatalan væri að hækka, en það væri vegna þess að það væri að bæta í vindinn.
„Vindurinn er lykilatriði í þessu. Ef það blæs ekki svona mikið þá dregst þetta loft ekki niður jafn glatt. Það er ekki nóg að fá hlýtt og rakt loft. Það þarf að vera vindur með því.“