Skoðun

Milljarðarnir ó­teljandi og bókun 35

Haraldur Ólafsson skrifar

Um svipað leyti og fréttir bárust af endurkomu bókunar 35 til Alþingis birti Evrópusambandið þykka skýrslu sem það fékk frá Mario Draghi, sem einu sinni stjórnaði seðlabanka fyrir sambandið.

Bókun 35 fjallar um tilfærslu á slatta af löggjafarvaldi frá Íslendingum til Evrópusambandsins. Hversu stór sá slatti er verður látið liggja milli hluta í þetta sinn, þó að því sögðu að slattinn er nógu mikill til að hann stangast á við stjórnarskrána.

Í skýrslu Draghi, sem sagt var frá í fréttum á Íslandi, er fjallað um erfiðleika í efnahag Evrópusambandsins og afleita stöðu þess miðað við aðra, sem það kýs að bera sig saman við. Embættismennirnir sem skrifa leggja til að aðildarríki Evrópusambandsins taki himinhátt lán til að borga fyrir verkefni sem munu laga stöðuna. Við fyrstu sýn virðist ekki vera svo að EES-ríkin, þar á meðal Ísland, borgi fyrir þetta, en fullvíst má telja að menn í sölum Evrópusambandsins séu nú að leita logandi ljósi að leið til að senda Íslendingum og Norðmönnum sanngjarnan hlut af reikningnum. Ef leitin skilaði árangri mætti búast við að Íslendingar og Norðmenn fengju líka sanngjarnan hlut af kökunni. Við mat á sanngirni er lítill vafi á því að margir munu vilja líta til þeirrar staðreyndar að þjóðartekjur á Íslandi og í Noregi eru háar, að atvinnuleysi á Íslandi er innan við helmingur af meðalatvinnuleysi í Evrópusambandinu og laun margfalt hærri en í fátækari hluta sambandsins. Sanngjarn hlutur gæti því hæglega orðið hár hluti af reikningnum, en ekki neitt af kökunni. Spyrja má þá hvort Íslendingum sé of gott að gefa fátækum. Spyrja má þá á móti hvort ekki sé betra að gefa þeim fátækustu, sem sannarlega þurfa á hjálp að halda, en næstríkasta hópi jarðarbúa, þótt þeir séu ekki sérlega ríkir miðað við þá ríkustu.

Eflaust þarf fleiri högg en bókun 35 til að koma fyrrgreindum reikningi yfir á Íslendinga. En það verða fleiri reikningar og ekkert sem bendir til annars en að Evrópusambandið muni halda áfram að sækja vald til EES-ríkjanna í litlum bitum, þar til ekkert sem máli skiptir verður eftir. Löngu áður en það gerist verður farið að innheimta allt mögulegt hjá Íslendingum. Það er nú reyndar þegar byrjað.

Þessa viðstöðulausu tilfærslu á valdi til gömlu nýlenduveldanna á meginlandi Evrópu þarf að stöðva og hefjast handa við að sækja aftur heim það vald sem hefur tapast.

Höfundur er formaður Heimssýnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×