Fótbolti

Sven-Göran Eriks­son látinn

Sindri Sverrisson skrifar
Sven-Göran Eriksson átti að baki langan og litríkan þjálfaraferil.
Sven-Göran Eriksson átti að baki langan og litríkan þjálfaraferil. Getty/Silvia Lore

Sænski fótboltaþjálfarinn Sven-Göran Eriksson er látinn, 76 ára að aldri, eftir baráttu við ólæknandi krabbamein.

Eriksson stýrði á sínum tíma tólf félagsliðum, þar á meðal Manchester City, Leicester, Benfica, Fiorentina, Sampdoria, Roma og Lazio, og vann með þeim 18 titla. 

Þá stýrði hann enska landsliðinu á árunum 2001-2006 og fór með það í 8-liða úrslit á þremur stórmótum. Hann stýrði einnig landsliðum Mexíkó, Fílabeinsstrandarinnar og loks FIlippseyja en þjáflaraferlinum lauk árið 2019.

Í janúar á þessu ári greindi Eriksson frá því að hann hefði greinst með krabbamein í brisi og ætti „í besta falli“ ár eftir ólifað.

Fjölskylda hans sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem greint var frá andláti Svíans. Hann lést í morgun á heimili sínu, umkringdur fjölskyldumeðlimum.

Síðasta starf Eriksson var sem yfirmaður knattspyrnumála hjá sænska félaginu Karlstad en þar hætti hann í febrúar 2023.

Eftir að hann sagði frá veikindum sínum í ársbyrjun rættist gamall draumur hans í mars, þegar hann fékk að stýra liði Liverpool á Anfield í góðgerðaleik gegn Ajax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×