Körfubolti

Barkley gaf eftir hundrað milljónir til að halda tryggð við TNT

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Charles Barkley er gríðarlega vinsæll sjónvarpsmaður.
Charles Barkley er gríðarlega vinsæll sjónvarpsmaður. getty/Mitchell Layton

Gamla körfuboltastjarnan og sjónvarpsmaðurinn Charles Barkley segist hafa gefið eftir háar fjárhæðir til að halda tryggð við TNT sjónvarpsstöðina.

Fyrr í sumar gekk NBA frá sjónvarpssamningum við Disney, NBC og Amazon Prime Video. Tilboði TNT var ekki tekið og því hverfur NBA af dagskrá stöðvarinnar eftir næsta tímabil. Deildin hefur verið sýnd á TNT í nærri fjóra áratugi.

Flaggskip TNT er þátturinn „Inside the NBA“ þar sem Barkley, Shaquille O'Neal, Kenny Smith og Ernie Johnson vaða á súðum.

Barkley hefur verið hjá TNT frá aldamótum og hann ætlar að halda tryggð við stöðina. Hann hafði þó marga kosti í stöðunni og var afar eftirsóttur.

Í viðtali við The Dan Le Batard Show with Stugotz sagði Barkley að hann hefði gefið eftir hundrað milljónir dollara til að halda áfram hjá TNT. Hann hafi gert það til að vernda samstarfsfólk sitt.

„Þetta var frábær tilfinning og ég vil þakka öllum þessum stöðvum fyrir að setja sig í samband við mig. Það var svalt. En fólkið mitt hjá Turner heldur starfinu sínu í allavega eitt ár og það skipti mig öllu máli,“ sagði Barkley.

Ekki liggur fyrir hvað tekur við hjá hinum 61 árs Barkley eftir næsta tímabil, þegar NBA yfirgefur TNT, en hann ætti ekki að eiga í vandræðum með að finna sér vinnu, það er að segja ef hann ætlar ekki að setjast í helgan stein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×